Glæsilegt blakmót

Frá Sigló-mótinu í blaki
Frá Sigló-mótinu í blaki

Siglómótið í blaki var fyrsti viðburður Vetrarleikanna í ár. Hvorki fleiri né færri en 38 lið mættu til leiks, 26 kvennalið sem léku í fjórum deildum og 12 karlalið sem léku í þremur riðlum í einni deild. Nokkrir leikir voru spilaðir á föstudagskvöld og svo iðuðu íþróttahúsin í Ólafsfirði og á Siglufirði af lífi allan laugardaginn. Fjölmargir gestir lögðu leið sína í íþróttahúsin til að fylgjast með skemmtilegri og spennandi keppni. Mótið fór í alla staði hið besta fram og var okkur til sóma.

Blakíþróttin er í stöðugum vexti hér í Fjallabyggð og er gaman að geta þess að alls tóku 9 lið héðan þátt í Siglómótinu, 2 karlalið og 7 kvennalið. Af þessum liðum unnu 2 lið til gullverðlauna á mótinu: Skriður – yngri vou efstar í 2. deild og Súlur 3 lönduðu efsta sætinu í 4. deildinni.
Bendum á fésbókarsíðu Vetrarleikanna þar sem sjá má fleiri fréttir af Vetrarleikunum og fjölmargar myndir frá Siglómótinu sem Haukur Marinósson tók.