Íþróttavika Evrópu 2015

Evrópuráðið hefur hrundið af stað nýju verkefni sem kallast Íþróttavika Evrópu. Markmiðið Merki íþróttavikumeð vikunni er að kynna íþróttir og hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Slagorð vikunnar er „BeActive“ eða „Vertu virkur“ og með því er verið að hvetja alla Evrópubúa til að hreyfa sig án tillits til aldurs, bakgrunns eða líkamlegs forms.

Fyrsta Íþróttavika Evrópu verður haldin 7. – 13. september 2015 og verður sett í Brussel. Allan septembermánuð munu hinir ýmsu viðburðir í tengslum við vikuna fara fram um alla Evrópu. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur hlotið styrk frá Evrópuráðinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfi þeirra til verkefna sem munu tengjast vikunni.

Myllumerkið #BeActive er slagorð Íþróttaviku Evrópu. Slagorðinu er ætlað að opna augu almennings fyrir mikilvægi hreyfingar, að breiða út boðskapinn og fá alla Evrópubúa til að hreyfa sig. ÍSÍ hvetur fólk til að nota myllumerkið í tengslum við vikuna.

Leiðarljós vikunnar eru þrjú:
• Upplýsa: Vekja athygli á jákvæðum áhrifum heilbrigðs lífsstíls.
• Hvetja: Sýna fólki hvernig hægt er að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl.
• Aðstoða: Skapa tækifæri fyrir fólk til að hreyfa sig og vera virkt í hröðu umhverfi nútímans.

Nánari upplýsingar um Íþróttaviku Evrópu er að finna á heimasíðu Evrópusambandsins.

Þau verkefni ÍSÍ sem tengjast Íþróttaviku Evrópu að þessu sinni eru Göngum í skólann 2015, Hjólum í skólann 2015 og Norræna skólahlaupið. Öll þessi verkefni miða að því að fá börn og ungmenni til að hreyfa sig, ásamt því að hvetja til aukinnar meðvitundar um mikilvægi hreyfingar í daglegu lífi. Verkefnin hafa lengi verið á forræði ÍSÍ en með því að tengja þau Íþróttaviku Evrópu skapast svigrúm til að bæta verkefnin enn frekar, bæði í kynningu og framkvæmd.

Nánari upplýsingar má einnig finna á heimasíðu ÍSÍ.