LÖG UÍF

Lög Ungmenna- og Íþróttasambands Fjallabyggðar

1.  KAFLI – RÉTTINDI OG SKYLDUR UÍF

1. gr.
Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF), eru samtök íþrótta- og ungmennafélaga í Fjallabyggð. UÍF er aðili að Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ). Heimili og varnarþing UÍF er í Fjallabyggð.

2. gr.
Hlutverk UÍF er að:

a)  Hafa frumkvæði, efla, samræma og skipuleggja íþróttastarf í Fjallabyggð í samræmi við lög ÍSÍ og UMFÍ.

b)  Vera í forystu um sameiginleg íþróttamál héraðsins og vera fulltrúi ÍSÍ og UMFÍ á þeim vettvangi.

c)  Vera fulltrúi aðildarfélaganna á vettvangi ÍSÍ, UMFÍ og sérsambanda.

d)  Annast samstarf um íþróttamál við bæjarstjórn Fjallabyggðar og aðra opinbera aðila innan héraðs.

e)  Varðveita og skipta milli aðildarfélaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt í því skyni.

f)  Staðfesta lög og allar lagabreytingar aðildarfélaga auk þess að halda utan um staðfest lög aðildarfélaga.

g)  Tilkynna ÍSÍ, UMFÍ og viðkomandi sérsambandi um stofnun nýrra félaga og deilda, sbr. 4. gr.

h)  Fylgjast með að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra, ÍSÍ og UMFÍ.

i)  Veita umsögn um íþróttamál og íþróttamannvirki í héraði.

j)  Fylgja eftir starfsemi og skýrsluskilum aðildarfélaga.

k)  Stuðla að fræðslu og forvörnum innan vébanda aðildarfélaga.

2. KAFLI. – RÉTTINDI OG SKYLDUR AÐILDARFÉLAGA UÍF

3. gr.
Þau félög með lögheimili í Fjallabyggð, sem hafa íþróttir á stefnuskrá sinni og hafa verið samþykkt af ÍSÍ, eiga rétt á að gerast aðilar að UÍF, enda fullnægi þau þeim skilyrðum sem sett eru í lögum ÍSÍ, UMFÍ og UÍF.

4. gr.
Óski félag eftir aðild að UÍF, sendir það stjórn UÍF umsókn ásamt lögum félagsins, upplýsingum um stofndag, ár, stjórn og félagatal. Við inngöngu nýs félags öðlast það keppnisréttindi UÍF. Skal stjórn UÍF tilkynna ÍSÍ og UMFÍ um aðild nýs félags. Inngönguna skal staðfesta á næsta þingi UÍF og verður félagið þar með fullgildur aðili að UÍF. Á því þingi hefur félagið seturétt.

4. gr. a
Hafi aðildarfélag á stefnuskrá sinni fleiri en eina íþróttagrein er félaginu heimilt að stofna deild um hverja þeirra, sbr. lög viðkomandi aðildarfélags. Stofnun deilda skal tilkynna UÍF sem tilkynnir viðkomandi sérsambandi.

5. gr.
Aðildarfélögum UÍF er skylt að senda starfsskýrslu til stjórnar UÍF fyrir 1. apríl ár hvert í því formi sem UÍF ákveður. Jafnframt er aðildarfélögum skylt að senda ÍSÍ skýrslur í því formi sem sambandið ákveður.

6. gr.
Reikningsár UÍF er almannaksárið. Aðildarfélög sem ekki hafa skilað starfsskýrslum og reikningum félagsins árituðum af kjörnum skoðunarmönnum og samþykktum af aðalfundi síðasta starfsárs til UÍF fyrir 1. apríl, missa atkvæðisrétt sinn á næsta ársþingi UÍF. Hafi skýrslur ekki verið sendar fyrir næsta þing UÍF næsta ár á eftir eða aðalfundur haldinn í viðkomandi aðildarfélagi skal stjórn UÍF taka ákvörðun um réttindi aðildarfélagsins og skyldur þess í samræmi við 7. gr.

7. gr.
Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal stjórn UÍF, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. Í því skyni skal UÍF hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum aðildarfélaga/sérráða sinna og ef ástæða þykir til getur stjórn UÍF tilnefnt sérstakan skoðunarmann reikninga fyrir félagið og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi aðildarfélags/sérráðs. Aðildarfélag/sérráð getur krafist þess að bókhaldsgögn fari eingögnu um hendur löggilts endurskoðanda. Aðildarfélag getur misst öll réttindi sín innan UÍF ef það brýtur lög UÍF, ÍSÍ eða UMFÍ. Stjórn UÍF tekur ákvörðun um viðurlög. Ákveði ársþing UÍF að víkja aðildarfélagi úr því er UÍF skylt að tilkynna það ÍSÍ, UMFÍ og viðkomandi sérsambandi.

8. gr.
Gangi aðildarfélag úr UÍF skal tilkynning um slíkt hafa borist stjórn skriflega a.m.k. mánuði fyrir ársþing UÍF og tekur úrsögnin gildi á því ársþingi.

9. gr.
Hafi félag misst aðild að UÍF getur það óskað eftir aðild á grundvelli 4. gr.

10. gr. a
Í lögum allra aðildarfélaga UÍF skulu vera ákvæði um félagasliti, svo og um ráðstöfun eigna aðildarfélaga.

3. KAFLI. – ÁRSÞING UÍF

11. gr.
Ársþing UÍF skal halda árlega, fyrir maí lok og skal stefnt að því að það sé haldið í Ólafsfirði og á Siglufirði til skiptis. Til þings UÍF skal boða bréflega, með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Eigi síðar en tveimur vikum fyrir þing skal senda aðildarfélögum dagskrá þingsins og tillögur sem borist hafa ásamt þeim tillögum er stjórnin hyggst leggja fyrir þingið. Aðildarfélög skulu senda stjórn UÍF sínar tillögur um lagabreytingar og aðrar tillögur, sem aðildarfélag óskar að verði ræddar á næsta þingi þremur vikum fyrir þing. Tillögur að lagabreytingu þurfa að koma fram í fundarboði. Gögn á ársþingi skulu vera í rafrænu formi, verði því við komið.

12. gr.
Ársþing UÍF er fulltrúaþing og hefur hvert aðildarfélag UÍF rétt til að senda fulltrúa á það. Fulltrúafjöldi skal reiknast eftir fjölda félagsmanna, miðað við seinustu árskýrslu aðildarfélagsins, staðfesta af ÍSÍ og UMFÍ. Aðildarfélag með færri en 50 félaga má senda 2 fulltrúa, en síðan einn fulltrúa fyrir hverja 50 félaga, eða helmingsbrot þar af, þó aldrei fleiri en 9 frá hverju aðildarfélagi. Kjörnir þingfulltrúar til ársþings UÍF hafa tillögurétt og atkvæðisrétt. Enginn fulltrúi má fara með fleiri en eitt atkvæði. Þingfulltrúar hafa einir atkvæðisrétt, eða varamenn þeirra. Fulltrúi getur því aðeins farið með atkvæði að hann hafi lagt fram kjörbréf sitt og það staðfest af þinginu

13. gr.
Á þingi UÍF eiga sæti fulltrúar þeir, sem aðildarfélög UÍF hafa kjörið til þingsetu skv. 11. gr.. Auk þeirra eiga rétt til þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:

a) Stjórnarmenn UÍF og varamenn þeirra.
b)  Skoðunarmenn UÍF.
c)  Fulltrúar ÍSÍ og UMFÍ.
d)  Fulltrúar Fjallabyggðar og ríkisins um íþróttamál.
e)  Formenn þingnefnda UÍF ef til eru.
f)  Fulltrúar frá félögum sem bíða staðfestingu á inngöngu.

Auk þess getur stjórn UÍF boðið öðrum þingsetu, ef hún telur ástæðu til.

14. gr.
Störf þingsins eru:

1.  Formaður UÍF setur þingið.
2.  Kosning þingforseta og þingritara.
3.  Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar.
4.  Álit kjörbréfanefndar.
5.  Lögð fram árskýrsla stjórnar svo og skoðaðir reikningar seinasta árs.
6.  Umræður um ársskýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
7.  Ávörp gesta.
8.  Kosning þingnefnda: kjörnefnd (3), allsherjar- og laganefnd (5) og fjárhagsnefnd (3)
9.  Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
10. Tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar lagðar fram og vísað til nefnda.
11. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

ÞINGHLÉ

12. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.
13. Kosningar. Álit kjörnefndar
14. Kosning stjórnar, sbr. 16. gr.. Skal formaður kosinn sér, en hina í einu lagi. Kosning tveggja skoðunarmanna.
15. Önnur mál.
16. Þingslit.

Allar kosningar skulu vera skriflegar, nema þeir sem tilnefndir eru séu jafn margir þeim sem kjósa skal. Til að ná kjöri sem formaður þarf einfaldan meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu skal kjósa milli þeirra tveggja sem efstir eru með sama hætti og við fyrri umferð.

15. gr.
Lögum UÍF verður aðeins breytt á ársþingi UÍF með a.m.k. 2/3 hlutum atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra þingfulltrúa. Um kjör stjórnar fer skv. ákvæðum 16. gr.. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum um tillögur varðandi önnur málefni.

16. gr.
Aukaþing skal haldið ef 2/5 aðildarfélaga óska þess. Ennfremur skal halda aukaþing ef tilmæli koma um það frá stjórnum ÍSÍ og UMFÍ. Allur boðunar- og tilkynningarfrestur til aukaþings, er helmingi styttri en til reglulegs ársþings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega ársþingi þar á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju, í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér, eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt þing.

4. KAFLI. – STJÓRN UÍF OG STARFSSVIÐ.

17. gr.
Stjórn UÍF skal kosin á ársþingi UÍF. Hún skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara, að formanni meðtöldum. Formaður er kosinn í sérstakri kosningu til eins árs í senn. Hvert aðildarfélag skal tilnefna einn fulltrúa sem er í kjöri til aðal- og varamanna og skila til stjórnar UÍF eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Láti félag hjá líða að tilnefnda fulltrúa til stjórnarkjörs er litið svo á að formaður þess sé tilnefndur. Úr þessum hópi skal kjósa fjóra aðalfulltrúa og tvo til vara. Þeir fjórir sem flest atkvæði fá mynda aðalstjórn með formanni. Atkvæðamagn ræður röðun varamanna þannig að sá þeirra sem fær flest atkvæði er fyrsti varamaður o.s.frv. Kjörtímabil stjórnar skal vera tvö ár, þó þannig að aðeins skal kosið um tvo árlega. Verkaskipting stjórnar skal vera: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.

Fjallabyggð á kost á að tilnefna áheyrnarfulltrúa í stjórn UÍF og ákveður stjórn hvaða fundi áheyrnarfulltrúi situr.  Þurfi að kjósa alla fulltrúa í stjórn af einhverjum ástæðum skal kosið þannig að þeir tveir sem fá flest atkvæði sitja í tvö ár, næstu tveir í eitt ár

18. gr.
Stjórn UÍF skal framfylgja ákvörðunum ársþings og aukaþinga UÍF svo og laga UÍF. Stjórnin setur sér starfsreglur. Stjórnin getur skipað starfsnefndir. Formaður kallar saman stjórnarfundi, eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði og oftar ef þörf þykir. Fundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar er mættur. Til stjórnarfundar þarf að boða með a.m.k. sólarhringsfyrirvara.

19. gr.
Eigi sjaldnar en tvisvar á ári skal stjórn UÍF halda fund með formönnum aðildarfélaga, þar sem stjórnin skýrir störf sín og viðfangsefni UÍF eru rædd. Til slíkra fundi skal boða til með tveggja vikna fyrirvara.

20. gr. a
Ef stofnað er sérráð skal stjórn UÍF gera starfsreglur fyrir sérráðið og kynna það sérsambandi í viðkomandi íþróttagrein

5. KAFLI. – ÝMIS ÁKVÆÐI / SLIT UÍF

21. gr.
Skulu eignir sambandsins renna til uppbyggingar íþróttamála í Fjallabyggð, undir forystu þar til kjörinnar nefndar, sem kosin skal af bæjarstjórn Fjallabyggðar. Það telst ekki slit ef sambandið sameinast öðrum hliðstæðum samtökum í öðrum héruðum.

Lög þessi eru samþykkt samhljóða á sambandsþingi UÍF þann 10. maí 2012. Lögin eru staðfest af framkvæmdastjórn ÍSÍ á fundi hennar þann (dags.) og framkvæmdastjórn UMFÍ þann (dags.) og öðlast þegar gildi.