Ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar var haldið miðvikudaginn 21. maí 2024, kl. 18, í Vallarhúsinu, Ólafsfirði.

Dagskráin þingsins er eftirfarandi, sbr. 13. gr. laga UÍF:

  1. Formaður UÍF setur þingið.
  2. Kosning þingforseta og þingritara.
  3. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar.
  4. Álit kjörbréfanefndar.
  5. Lögð fram árskýrsla stjórnar svo og skoðaðir reikningar seinasta árs.
  6. Umræður um ársskýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
  7. Ávörp gesta.
  8. Kosning þingnefnda: kjörnefnd (3)
  9. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
  10. Tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar lagðar fram og vísað til nefnda.
  11. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.
  12. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.
  13. Álit kjörnefndar
  14. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein. Skal formaður kosinn sér, en hina í einu lagi. Stjórnin skiptir með sér verkum, í þau störf er um getur í 16. grein.
  15. Kosning skoðunarmanna, (tveir aðalmenn og tveir varamenn).
  16. Önnur mál.
  17. Þingslit.

 

Þingögn samanstóðu af ársreikningi UÍF og fjárhagsáætlun svo og tillögu stjórnar til breytinga á reglum um bæjarstyrk og tillögu stjórnar um fjárframlag af reikningi UÍF til Verkefnasjóðs.

Fundargerð

  1. Formaður UÍF, Óskar Þórðarson setti þingið; og bauð alla velkomna á ársþing UÍF. Hann bauð Hauk Valtýsson fv. formann UMFÍ sérstaklega velkominn svo og Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóra fræðslu- og frístundamála Fjallabyggðar.

                                                                                                      

  1. Kosning þingforseta og þingritara; Stungið var upp Óskari Þórðarsyni sem þingforseta og Brynju Ingunni Hafsteinsdóttur sem þingrita. Það var samþykkt einróma.

Þingforseti tók þá til máls, þakkaði traustið og bauð gesti velkomna.

  1. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar; Stungið var upp á Ólínu Þórey frá Snerpu og að með henni í nefndinni yrðu Rósa Jónsdóttir formaður GFB og Haukur Orri Kristjánsson stjórnarmaður Glæsis.

Það var samþykkt einróma.

  1. Álit kjörbréfanefndar.

Þá kynnti Rósa Jónsdóttir formaður kjörbréfanefndar álit nefndarinnar.

Kjörbréf bárust frá 12 af 14 aðildarfélögum. Af 33 skráðum fulltrúum samkvæmt kjörbréfum voru 23 mættir. Kjörbréfnefndin sá ekkert athugavert við kjörbréfin og telur þau gild.  Voru þau samþykkt af þingfulltrúum.

  1. Lögð fram ársskýrsla stjórnar og skoðaðir reikningar síðasta árs.

Óskar formaður stjórnar UÍF flutti skýrslu stjórnar.  Hann fór yfir hverjir sætu í stjórn UÍF og helstu störf og verkefni hennar.  Starfsemin hafi snúið að hefðbundnum og lögbundnum hlutverkum sambandsins s.s. að vera málsvari íþróttahreyfingarinnar út á við, eiga samskipti við ÍSÍ, UMFÍ og sveitarfélagið og deila út fjármunum frá þessum aðilum til aðildarfélaganna eftir þeim reglum sem íþróttahreyfingin hefur sett sér.

Nokkur aðildarfélög fengu aðstoð við lagasetningu. Óskar fór yfir að Hóll hefði verið seldur og UÍF hefði aðstöðu í Vallarhúsinu á Ólafsfirði.

Heimasíðan UÍF hafi einnig verið sett í loftið og verði farið betur yfir upplýsingar þar inni undir önnur mál.

Stjórn UÍF fundar að jafnaði 1x í mánuði en oftar ef tilefni er til. Þá fóru stjórnarmenn á ýmsa fundi á vegum UMFÍ og ÍSÍ. Mæting á þá fundi er sambandinu mikilvæg, bæði til að fá innsýn í það sem er að gerast í íþróttahreyfingunni, kynna okkar starfsemi svo og til að hafa áhrif en einnig vegna Lottótekna en þær skerðast ef við mætum ekki á ákveðna fundi. Óskar fór einnig yfir þær breytingar sem verða á uppbyggingu  íþróttahreyfingarinnar með tilkomu svæðisskrifstofa.

Starf íþróttahreyfingarinnar væri ekki mögulegt án fórnfúss starfs fjölda fólks og þakkaði Óskar, fyrir hönd UÍF, þessum stóra hópi sjálfboðaliða kærlega fyrir.

Einnig þakkaði Óskar öllum samstarfsaðilum og þá sérstaklega stjórnum og félagsmönnum aðildarfélaganna fyrir gott og gæfuríkt samstarf.

Eva gjaldkeri UÍF og Óskar gerðu jafnframt grein fyrir ársreikningi UÍF.

Rekstrartekjur UÍF voru:  35.430.090 kr.

Rekstrargjöld voru:   33.468.627 kr.

Hagnaður ársins var: 1.961.463 kr.

Veltufjármunir voru:  84.850.248 kr.

Eigið fé var:  84.788.248 kr.

Skammtímaskuldir voru: 62.000 kr.

 

  1. Umræður um ársskýrslu og reikninga fóru fram og voru svo lagðir fram til samþykktar.

Óskar gaf orðið laust um reikninga og skýrslu stjórnar UÍF.   Litlar umræður voru um reikningana. Óskar þakkaði fyrir góða skýrslu og ársreikninga.

Ársreikningur UÍF lagður fram til samþykktar.  Var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

  1. Ávörp gesta.

Haukur Valtýsson fv. formaður UMFÍ ávarpaði þingið og færði þinginu bestu óskir frá stjórn og starfsfólki þjónustumiðstöðvar UMFÍ.  Hreyfingin hefur tekið stór skref á síðustu misserum og verðmætasti lærdómurinn er gildi samvinnu og samstarfs. Unnið hefur verið að breytingu hjá hreyfingunni með uppsetningu starfsstöðva og er ráðning starfsfólks langt komið. Er gert ráð fyrir að starfsfólk hefji störf í byrjun júní og fram í ágúst. Stöðvunum er ætlað að efla íþróttafélög landsins og munu þær gera það. UÍF fellur undir sömu starfsstöð og héraðssambönd við Eyjafjörð og HSÞ sem er í næsta nágrenni. Starfsstöðvarnar eiga að aðstoða félögin við að sinna lögbundnum verkefnum sínum en þau hafa ekki öll náð því í dag. Starfsfólkinu er ætlað að vera hrein viðbót við þá starfsemi sem fyrir er í héruðum. Starfsstöðvarnar munu vinna þvert á öll héruð. Þær falla líka að stefnu ríkisins í íþróttamálum og fjármagnar ríkið einnig svokallaðan Hvatasjóð sem ætlað er að ná betur til fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum svo og barna sem tala önnur tungumál. Haukur óskaði UÍF til hamingju með að hafa fengið úthlutað Landsmóti 50+ á næsta ári. UMFÍ hefur lagt til framkvæmdastjóra mótanna og hvatti hann UÍF til að vera í góðu samstarfi við hann. Mikilvægt er að láta rödd UMFÍ heyrast t.d. í gegnum lagasetningu sem snertir starfsemina, t.a.m. endurskoðun íþróttalaga. Rakti Haukur hvað fælist í endurskoðun laganna. Velti hann fyrir sér hvort setja mætti bann við erlendum veðmálasíðum og hagræðingu úrslita á íþróttaviðburðum. Haukur situr í íþróttanefnd ríkisins sem kemur m.a. að þessari endurskoðun. Rakti Haukur einnig þá sjóði sem UMFÍ hefur innan sinna vébanda og hvatti hann aðildarfélög til að kynna sér þá nánar. Landmótin eru mjög vinsælir viðburðir og má fá frekari upplýsingar um þau á heimasíðu UMFÍ. Kom Haukur einnig inn á mál getrauna og getspár svo og að lýðheilsu. Lýðheilsuvandamál megi oft rekja til hreyfingarleysis. Nikótínpúðar eru oftast keyptir af ungmennum undir 20 ára aldri. Hreyfingin getur haft áhrif á breytingar á lífstíl fólks. Lottó er í eigu íþróttahreyfingarinnar og ættu allir að taka þátt í lottó en ekki erlendum veðmálasíðum. Lotto skilar háum fjárhæðum til íþróttahreyfingarinnar en erlendar síður skila engu til hreyfingarinnar.  Svæðisstöðvar geta örugglega lagt hreyfingunni lið við að efla lýðheilsu. Þakkaði hann sjálfboðaliðum fyrir vel unnin störf.

Ríkey Sigurbjörnsdóttir sagði frá því að verið væri að bjóða út skólafrístundaakstur. Bæjarstjórn hefur samþykkt að bæta við einni rútuferð fjóra daga vikunnar fram og til baka og er þar verið að koma til móts við óskir UÍF og BF. Einnig verður aukið starf fyrir miðstigið í Neon og þá bætist jafnframt við ferð sem eldri nemendur geta nýtt sér.

  1. Kosning þingnefnda.

Óskar óskaði eftir tillögum um þrjá í kjörnefnd.  Lagt er til að Kristján Hauksson, Dagný Finnsdóttir og Guðný Kristinsdóttir taki að sér nefndarstörf og var það samþykkt samhljóða.

  1. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Óskar kynnti fjárhagsáætlunina fyrir árið 2024 og fór yfir hana lið fyrir lið. Áætlaðar tekjur verða alls 36.178.000 kr. og áætluð gjöld verða samtals 34.048.000 kr. Fjárhagsáætlunin var síðan samþykkt.  Styrkur Fjallabyggðar er 11.730.000 kr. árið 2023.

  1. Tillögur og önnur máls sem borist hafa til stjórnar.

Engar tillögur bárust til stjórnar.

  1. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

Stjórn UÍF lagði fram tillögur að breytingum á lögum UÍF, úthlutunarreglum UÍF á styrk Fjallabyggðar til aðildarfélaga (bæjarstyrkur), og útgreiðslu fjármuna UÍF til Verkefnasjóðs.

Tillögur að breytingum á lögum UÍF;

  1. gr.

Aðildarfélögum UÍF er skylt að senda starfsskýrslu skv. úthlutunarreglum UÍF á styrk Fjallabyggðar til aðildarfélaga, til stjórnar UÍF fyrir 7. maí ár hvert í því formi sem UÍF ákveður. Jafnframt er aðildarfélögum skylt að senda ÍSÍ skýrslur í því formi sem sambandið ákveður.

Breytingar voru samþykktar samhljóða.

 

 

Tillögur að breytingum á reglum um Bæjarstyrk;

 

  1. gr.

Aðildarfélög skulu skila eftirfarandi upplýsingum á til þess gerðu eyðublaði fyrir 7. maí:

  1. Fjölda iðkenda og félaga samkvæmt upplýsingum úr skilakerfi ÍSÍ.
  2. Lýsingu á virkni félags,  nöfnum þjálfara, upplýsingum um æfingar og þátttöku í mótum eða opinberum viðburðum.
  3. Ársreikningi síðasta starfsárs.
  4. afrit af fundargerð aðalfundar síðasta árs.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

Stjórn óskar eftir heimild ársþings til að greiða 1.000.000 kr. af reikningi UÍF 034-03-402390 í Verkefnasjóð. Rökin fyrir þessari tillögu eru þau að sjóðurinn stækkaði í Covid en eftir að íþróttastarf er aftur komið í gang þá gengur hratt á sjóðinn. Sjóðurinn má samkvæmt reglum um hann ekki vera lægri en 400.000 kr. eftir úthlutun. Markmið sjóðsins er m.a. að veita aðildarfélögum styrki til að viðhalda öflugu íþrótta- og félagsstarfi.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

  1. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.

Engin nefnd var að störfum nema kjörnefnd.

  1. Kosningar, álit kjörnefndar

Kosning formanns; Óskar Þórðarson bauð sig fram og komu engin mótframboð.  Var hann kosin einróma og telst rétt kjörinn formaður.

Kosning stjórnar: Eva og Kristján sitja sitt seinna ár í stjórn. Kosið var um tvo aðalmenn og tvo til vara. Merkt var við allt að fjóra einstaklinga á kjörseðli. Þá voru greidd atkvæði og kjörnefnd tók til starfa.

  1. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein laga UÍF

Atkvæði í stjórn UÍF voru eftirfarandi:

Arnheiður Jónsdóttir með 20 atkvæði

Anna Þórisdóttir með 20 atkvæði

Guðrún Sif Guðbrandsdóttir  11 atkvæði

Sandra Finnsdóttir með 10 atkvæði

Þórarinn Hannesson  með 8 atkvæði

Haukur Orri Kristjánsson með 6 atkvæði

Hilmar Símonarson með 5 atkvæði

Valgerður Þorsteinsdóttir með 4 atkvæði

Linda Lea Bogadóttir með 3 atkvæði

Sverri Júlíusson með 3 atkvæði

 

Réttkjörnir aðalmenn til tveggja ára eru því Arnheiður og Anna. Varamenn eru Guðrún Sif  og Sandra Finnsdóttir.

 

  1. Kosning skoðunarmanna.

Lögð er fram tillaga um Þórarinn Hannesson og Rósa Jónsdóttir og var það samþykkt samhljóða.

  1. Önnur mál

Landsmót 50+ ; UMFÍ hefur lagt til tvær dagsetningar að mótinu og eru það 13.-15. júní eða 27. til 29. júní 2025. Þingið leggur til seinni hluta júní mánaðar.  Einnig voru vangaveltu um hvort möguleiki væri á 20. júní til 22. júní.

Skerðing á lottótekjum og vaxtatekjur af Hólspeningum.  Óskað var eftir að þingið velti fyrir sér að veita stjórn heimild til að nýta vaxtattekjur af Hólspeningum til að greiða upp á móti mögulegri skerðingu á lottó greiðslum. Kristján fór yfir hvernig fyrirsjáanlegt væri að lóttótekjur UÍF yrðu samkvæmt nýjum reglum. Hann er ósáttur við þá skerðingu sem UÍF verður fyrir og óskaði eftir nánari skýringum.  Framkvæmdastjóri UMFÍ fullyrti aðspurð að skerðingin til UÍF yrði 15%, svo skerðingin verður ekki jafn mikil eins og fyrirsjáanlegt hafði verið. Lagði Kristján til að þingið myndi samþykkja heimild til stjórnar um að nýta vaxtatekjur af Hólsreikning til samræmis við skerðinguna á lottó. Þórarinn tók einnig undir að þær upplýsingar sem lagðar hafi verið fram um skerðingu á lottó hafi verið mjög ósanngjarnar hvað varðar m.a. UÍF.

Tillagan var lögð fram og samþykkt samhljóða.

Einnig kom fram almenn ánægja með Vetrarleikana.                                     .

Ríkey óskaði eftir að aðildarfélög sendu tímanlega upplýsingar um sumarnámskeið.

Kristján hvatti aðildarfélögin til að leggja markið hátt á Landsmóti 50+ og gera mótið sem glæsilegast.  Hann hvatti sem flesta að fara og keppa á Landsmótinu í ár og fá góðar hugmyndir hvað varðar viðburði. Mótið felur í sér gríðarleg tækifæri.

Ársþingi UÍF var slitið kl. 19:50.

Þingfulltrúar:

Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar: Eygló Ómarsdóttir og Hugborg Harðardóttir.

Skíðafélag Ólafsfjarðar:  Kristján Hauksson.

Ungmennafélagið Glói:  Þórarinn Hannesson

Íþróttafélagið Snerpa: Ólína Þórey Guðjónsdóttir og Margrét Einarsdóttir.

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg:  Anna María Björnsdóttir og Sandra Finnsdóttir.

Golfklúbbur Fjallabyggðar:  Rósa Jónsdóttir og Dagný Finnsdóttir.

KF: Sunneva Lind Gunnlaugsdóttir, Patrekur Darri Ólason.

Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Hreinsson.

Hestamannafélagið Glæsir: Hörður Kristjánsson og Magnús Jónasson.

Blakfélag Fjallabyggðar: Valgerður Þorsteinsdóttir, Sigurlaug Guðjónsdóttir og Ása Guðrún .

Skotfélag Ólafsfjarðar: Guðný Kristinsdóttir og Örvar Sævarsson.

Vélsleðafélag Ólafsfjarðar: Svanborg Anna Sigurlaugsdóttir.

Stjórn ÚÍF: Óskar Þórðarson, Kristján Hauksson, Anna Þórisdóttir og Eva Björk Ómarsdóttir.

Gestir: Haukur Valtýsson UMFÍ auk Ríkeyjar Sigurbjörnsdóttur deildarstjóra fræðslu-og frístundamála í Fjallabyggð.

Fundarritari fær heimild fundarins til að ganga frá fundargerð.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir (sign.)

UIF notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á holl.tonaflod.is

• CookieConsent


Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur