Ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar var haldið kl. 18, þriðjudaginn 15. maí 2018 að Hóli, Siglufirði.

Dagskráin þingsins er eftirfarandi, sbr. 13. gr. laga UÍF:

 1. Formaður UÍF setur þingið.
 2. Kosning þingforseta og þingritara.
 3. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar.
 4. Álit kjörbréfanefndar.
 5. Lögð fram árskýrsla stjórnar svo og skoðaðir reikningar seinasta árs.
 6. Umræður um ársskýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
 7. Ávörp gesta.
 8. Kosning þingnefnda: kjörnefnd (3), allsherjar- og laganefnd (5) og fjárhagsnefnd (3)
 9. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
 10. Tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar lagðar fram og vísað til nefnda.
 11. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

ÞINGHLÉ

 1. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.
 2. Álit kjörnefndar
 3. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein. Skal formaður kosinn sér, en hina í einu lagi. Stjórnin skiptir með sér verkum, í þau störf er um getur í 16. grein.
 4. Kosning skoðunarmanna, (tveir aðalmenn og tveir varamenn).
 5. Önnur mál.
 6. Þingslit.

 

Þingögn samanstóðu af skýrslu og ársreikningi UÍF auk tillögu stjórnar að breytingum að reglum um úthlutun bæjarstyrks auk ársreikningum frá aðildarfélögum UÍF.

Fundargerð

 1. Formaður UÍF, Þórarinn Hannesson setti þingið; og bauð alla velkomna á ársþing UÍF. Hann bauð Inga Þór Ágústsson stjórnarmann ÍSÍ og Hauk Valtýsson formann UMFÍ sérstaklega velkomna. Þórarinn óskaði öllum góðs þings og að þingfulltrúar myndu njóta veitinga sem Skíðafélag Siglufjarðar hafi séð um.

 

 1. Kosning þingforseta og þingritara.

Stungið var upp Friðriki Steinari Svavarssyni sem þingforseta og Brynju Ingunni Hafsteinsdóttur sem þingrita.  Það var samþykkt einróma.

Þingforseti tók þá til máls, þakkaði traustið og bauð gesti velkomna.

 

 1. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar.

Stungið var upp á Helgu Hermannsdóttir formanni Snerpu og að með henni í nefndinni yrðu Rósa Jónsdóttir formaður GFB og  Þorvaldur Sveini Guðbjartsson formaður KF.

Það var samþykkt einróma.

 

 1. Álit kjörbréfanefndar.

Á meðan kjörbréfanefnd fór yfir kjörbréfin kynnti þingið sér gögn þingsins.

Þá kynnti Rósar Jónsdóttir formaður kjörbréfanefndar álit nefndarinnar.

Af 36 skráðum fulltrúum samkvæmt kjörbréfum voru 27 mættir.  Kjörbréfnefndin sá ekkert athugavert við kjörbréfin og telur þau gild.  Var það samþykkt.

 

 1. Lögð fram ársskýrsla stjórnar og skoðaðir reikningar síðasta árs.

Þórarinn formaður UÍF las upp skýrslu stjórnar.  Hann fór í stuttu máli yfir störf stjórnar og helstu verkefni hennar. Hann fór yfir þau stóru mál sem stjórnin hefur unnið að og lokið. Fram kom að starfsemi stjórnar snúi að hefðbundnu og lögbundnu hlutverki s.s. að vera málsvari íþróttahreyfingarinnar bæði gagnvart sveitarfélaginu svo og ÍSÍ og UMFÍ. Einnig að aðstoða aðildarfélög eftir þörfum. Þórarinn fór nánar yfir verkefni UÍF. Í samstarfi við Kiwanisklúbbinn Skjöld hafi UÍF staðið fyrir vali á íþróttamanni Fjallabyggðar og var Elsa Guðrún Jónsdóttir skíðagöngukona valin íþróttamaður ársins annað árið í röð. Þórarinn sagði frá Hreyfiviku sem er evrópsk lýðheilsuherferð og er ætlað að kynna kosti þess að taka þátt í hreyfingu og íþróttum. Einn liður af Hreyfiviku er sundkeppni milli sveitarfélaga en Fjallabyggð lenti á síðasta ári í 5. sæti en um 40 sveitarfélög tóku þátt. Frétta- og fræðslusíða UÍF hefur dafnað en þar hafa verið fluttar hátt í 400 fréttir af íþróttalífinu í Fjallabyggð og eru fylgjendur rúmlega 200. UÍF væntir þess að fréttaflutningur af starfsemi aðildarfélaga komi til með að fjölga iðkendum og styrkja félögin. Þórarinn kvað ánægjulegt að sjá að í stefnuskrám framboða til sveitarstjórnar sé lagt til að hækka bæjarstyrkinn, þ.e. styrk Fjallabyggðar til aðildarfélaga UÍF. Stjórn UÍF hefur lagt fram tillögu að breytingu á reglunum og mun ársþingið fjalla um þær tillögur.  Þórarinn fór einnig yfir samskipti stjórnar UÍF við bæjaryfirvöld og aðkomu íþróttahreyfingarinnar að Frístund, sem er fjölbreytt dagskrá fyrir nemendur í 1-4. bekk GF að loknum skóladegi.  Því verkefni var hrundið af stað með skömmum fyrirvara og hafði íþróttahreyfingin ekki nema um 3 vikur til undirbúnings. Því hafi það verið kaldar kveðjur þegar samningur sem gerður hafði verið milli Fjallabyggðar og UÍF um afnot Fjallabyggðar af íþróttamiðstöðinni að Hóli hafi einhliða verið lækkaður úr 1.500.000 kr. í 800.000 kr. og síðan felldur úr gildi þrátt fyrir að samningurinn hafi verið í fullu gildi og hafi átti að tryggja UÍF greiðslur fram á næsta ár. Sveitarfélagði er með knattspyrnuvöll og golfvöll við Hól og þarf aðstöðu til að hægt sé að nýta þessa velli s.s. búningsklefa, geymslur o.fl. Í sumar mun Fjallabyggð þó greiða fyrir afnot KF af aðstöðunni á Hóli. Þórarinn kvað ánægjulegt að knattspyrnustarf á Hóli geti haldið áfram. UÍF hefur staðið fyrir Vetrarleikum frá árinu 2011 en markmið þeirra er að auka áhuga íbúa á hreyfingu og kynna fjölbreytt íþróttastarf aðildarfélaganna. Í ár tóku 8 aðildarfélög þátt og Fjallabyggð bauð frítt í sund. Leikarnir voru haldnir eina helgi á Ólafsfirði og aðra helgi á Siglufirði og gafst það vel. Þórarinn sagði frá íþróttamiðstöðinni að Hóli en húsnæðið brann fyrir nokkrum árum. Uppbyggingin hefur gengið vel og framkvæmdum lokið í bili. Útleiga er mikil á Hóli og undanfarin ár hefur rekstur fasteignarinnar staðið undir sér en æskilegt er að klára að klæða húsið og gera upp milligang. Íþróttahreyfingin hefur aðgang að Hóli til fundarhalda og einstakra viðburða fyrir iðkendur. Þórarinn þakkaði Guðnýju og Andrési fyrir vel unnin störf en Guðný er umsjónarmaður Hóls. Þórarinn fór síðan yfir önnur viðfangsefni. Umsóknum í Verkefnasjóð hefur fjölgað. Formannafundir voru að venju haldnir að vori og hausti og fór þar einnig fram kynning á Felix. Fjárhagur UÍF er í ágætum málum en vænta má minni umsvifa á Hóli. Því verði íþróttahreyfingin að velta fyrir sér hlutverki Hóls og þörfinni á þessu húsnæði fyrir hreyfinguna.  Á formannafundum hefur komið fram eindregin vilji til að halda Hóli og samkvæmt þeim vilja starfar stjórn UÍF. Draumur UÍF hefur verið að vera með starfsmann í hlutastarfi til að vinna að málefnum íþróttahreyfingarinnar, gert þau markvissari og aðstoðað íþróttafélögin í ýmsum málefnum svo og að vinna þau verkefni sem starfsmenn sveitarfélagsins hafa haft á sinni könnu og snerta íþróttamál. Stjórn UÍF er tilbúin að eiga samtal við sveitarfélagið um mögulega yfirfærslu þessara verkefna. Fjallabyggð er orðið heilsueflandi samfélag en þann 11. júní 2018 fer fram formleg undirritun samnings þar að lútandi við embætti Landlæknis. Í slíkum samningi gæti falist tækifæri til að láta draum UÍF um starfsmann í hlutastarfi rætast.  Þórarinn sagði frá nýjum aðildarfélögum UÍF en það eru Blakfélag Fjallabyggðar og Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar.

Að lokum þakkaði Þórarinn, f.h. stjórnar, aðildarfélögunum fyrir gott samstarf svo og öllum félagsmönnum.

Þórarinn formaður UÍF gerði grein fyrir ársreikningi UÍF

Rekstrartekjur UÍF voru:  24.933.821 kr.

Rekstrargjöld voru:   24.598.423 kr.

Hagnaður ársins var:  335.398 kr.

Varanlegir rekstrarfjármunir voru:  34.559.490 kr.

Veltufjármunir voru:  44.588.394 kr.

Eigið fé var:  42.653.912 kr.

Langtímalán var: 1.410.000 kr.

Skammtímaskuldir voru: 524.482 kr.

 

 1. Umræður um ársskýrslu og reikninga fóru fram og voru svo lagðir fram til samþykktar.

Forseti gaf orðið laust um reikninga og skýrslu UÍF.   Þorvaldur Hreinsson benti á að réttast væri að reglur um niðurfellingu fasteignagjalda yrðu samræmdar hjá þeim félögum sem ættu fasteignir. Guðný Helgadóttir þakkaði fyrir góðan rekstur hjá stjórn UÍF. Ólafur Kárason spurði hvort að kostnaðaráætlun væri komin fyrir viðgerðum á tengigangi. Þórarinn sagði að Fjallabyggð hefði gert kostnaðaráætlun fyrir fjórum árum. Ársreikningur UÍF lagður fram til samþykktar.  Var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

 

 1. Ávörp gesta.

Haukur Valtýsson formaður UMFÍ ávarpaði þingið og færði þinginu bestu óskir frá stjórn og starfsfólki þjónustumiðstöðvar UMFÍ.  Hann þakkaði fyrir skýrslu stjórnar UÍF og vel uppsetta reikninga. Hann sagði frá því að UMFÍ hafi verið í vinnuhóp um „Metoo“ ásamt ráðuneytinu. Í máli hans kom fram að þau mál verði að vinna alls staðar með sama hætti og þau verði að vinna í návígi. Einnig sagði hann frá verkefnunum „Sýnum karakter“ og „Betra félag“, sem bæði eru unnin í samvinnu við ÍSÍ. Almenningsíþróttaverkefni UMFÍ eins og Hreyfivika hafi vaxið stöðugt. Þátttakan hafi jafnframt allltaf verið að aukast. Að efla og bæta lýðheilsu þjóðarinnar er eitt af markmiðum UMFÍ. Yfirvöld ættu því að hans mati að vinna meira með íþróttaforustunni að þessu verkefni. Slíkt hafi átt sér stað í Danmörku. Landsmótið sé annað lýðheilsuverkefnið og verður haldið á Sauðarárkróki í ár. Það sé með breyttu sniði t.d. verður keppt í körfubolta og knattspyrnu einn á móti einum.  Þetta mót er framlag UMFÍ til að efla og bæta lýðheilsu í landinu. Hlaupaskotfimi verður m.a. einnig á dagskrá mótsins. Unglingalandsmót UMFÍ er fyrir þá sem eru yngri en 18 ára og er eitt stærsta forvarnarverkefni í landinu.  Hann áréttaði að innra starf félags skiptir mestu máli fyrir iðkendur en ekki stærð félagnna.  Haukur lagði til að UÍF myndi sækja um Landsmót 50+ og t.d.  halda vetrarlandsmót. Hann benti líka á fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ svo og umhverfissjóð UMFÍ. Felix hefur að hans mati ekki gengið sem skyldi, því miður.  Loks veittir Haukur Gunnlaugi Stefáni Vigfússyni, Gulla Sínu, starfsmerki UMFÍ.

Ingi Þór Ágústsson stjórnarmaður ÍSÍ ávarpaði þingið og færði öllum kveðjur framkvæmdastjórnar ÍSÍ og framkvæmdastjóra svo og Viðars. Hann hrósaði Frétta- og fræðslu facebook síðu UÍF og kvað gaman að fylgjast með henni. Hann kvað skýrslu stjórnar einnig vel unna. Hann hrósaði einnig Frístund og sagði frá reynslunni af slíku fyrirkomu á Vestfjörðum.  Hann kvað HSV fá í dag 36.000.000 kr. styrk frá Ísafjarðarbæ til verkefnisins. Þetta sé fyrir öll börn og taki 98% barna 12 ára og yngri á svæðinu þátt. Hann nefndi að ÍR hefði gert stóran samning við Reykjavíkurborg  um slíkt verkefni svo og í Keflavík. Hvort frístund sé í boði  sé ein af þremur grunnforsendum fyrir vali fjölskyldna á hvar þær vilji búa. Ákvörðunarástæða fyrir búsetu sé vinna, skóli og íþróttir.  Hann fagnaði að Fjallabyggð væri heilsueflandi samfélag og hvatti UÍF til að halda  Unglingalandsmót UMFÍ. Stærsta verkefni ÍSÍ er afrekssjóðurinn. Verið er að úthluta úr honum til sérsambanda. Ferðasjóður ÍSÍ hefur gagnast aðildarfélögu UÍF vel en þau hafa sótt í hann.  Er stefnt að því að efla þennan sjóð.  Hann vonar að allir hjálpist við að koma í veg fyrir allt ofbeldi, sama hvernig það er, og að það sé ekki liðið.  Hvatti UÍF til að skoða fyrirmyndarhéraðsmódelið en tvö héraðssambönd hafa nú þegar hlotið nafnbótina.

 1. Kosning þingnefnda.

Forseti óskaði eftir tillögum um þrjá aðila í kjörnefnd.  Lagt er til að Þorvaldur Hreinsson,  María Jóhannsdóttir og Kristján Hauksson taki sér nefndarstörf og var það samþykkt samhljóða.

 

 1. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Þórarinn kynnti fjárhagsáætlunina og fór yfir hana lið fyrir lið. Tekjur verða alls 25.500.000 kr. og gjöld verða samtals 24.550.000 kr. Rekstarafgangur kr. 950.000.  Fjárhagsáætlunin var síðan samþykkt.

 

 1. Tillögur og önnur máls sem borist hafa til stjórnar.

Engar tillögur bárust til stjórnar.

 

 1. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

Stjórn UÍF lagði til breytingar á reglum um bæjarstyrk og reglur um hlutdeild UÍF í hagnaði af Íslenskri getspá, lottó.

Tillögur að breytingum á úthlutunarreglum UÍF á styrk Fjallabyggðar til aðildarfélaganna. Efni tillagnanna snýr að því að breyta 4. gr. b. þannig að lagt er til að einfalda skiptinguna þannig að í stað þess að skipta eftir fjölda iðkenda og einnig eftir umfangi aðildarfélagi þannig að aðeins verði horft til umfangs aðildarfélaga.

Tillögurnar eru eftirfarandi:

Árlegum styrk  Fjallabyggðar til  UÍF vegna aðildarfélaga skal skipt á eftirfarandi hátt:

 1. a) Grunnstyrkur að upphæð kr. 70.000.- rennur til hvers aðildarfélags
 2. b) Eftir greiðslu grunnstyrks er 90% skipt eftir, umfangi aðildarfélaga vegna barna- og unglingastarfs iðkenda 18  ára og yngri, fatlaðra 18 ára og eldri og aldraðra. Stjórn UÍF  tekur ákvörðun um hlutfallsskiptingu hvers aðildarfélags þar sem lagt er til grundvallar upplýsingar frá aðildarfélögum um umfang barna- og unglingastarfsins, s.s. starfstíma, umfangi æfinga og þjálfunar, umfangi við mótahald og öðru því sem viðkemur virkni aðildarfélaganna í barna- og unglingastarfi. Loks renna 10% í verkefnasjóð sem er í vörslu stjórnar UÍF. Úthlutanir úr honum eru samkvæmt reglum sjóðsins.

 

Tillagan samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða og verður svohljóðandi:

 

Hreinn texti:

 1. b) Eftir greiðslu grunnstyrks er 90% skipt eftir umfangi aðildarfélaga vegna barna- og unglingastarfs iðkenda 18  ára og yngri, fatlaðra 18 ára og eldri og aldraðra. Stjórn UÍF  tekur ákvörðun um hlutfallsskiptingu hvers aðildarfélags þar sem lagt er til grundvallar upplýsingar frá aðildarfélögum um umfang barna- og unglingastarfsins, s.s. starfstíma, umfangi æfinga og þjálfunar, umfangi við mótahald og öðru því sem viðkemur virkni aðildarfélaganna í barna- og unglingastarfi. Loks renna 10% í verkefnasjóð sem er í vörslu stjórnar UÍF. Úthlutanir úr honum eru samkvæmt reglum sjóðsins.

 

 

Reglur um skiptingu hlutdeildar UÍF í hagnaði af Íslenskri getspá (Lottó) milli aðildarfélaga UÍF.

 

 1. 56% skiptast eftir umfangi aðildarfélaganna eins og fram kemur í starfsskýrslum sem sendar eru UÍF 31. mars árinu á undanReikniforsendur skulu vera þær sömu og í 4. gr. úthlutunarreglna UÍF vegna styrks frá Fjallabyggð.

4

 

Tillagan samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða og verður svohljóðandi:

 

Hreinn texti:

 1. 56% skiptastí eftir umfangi aðildarfélaganna eins og fram kemur í starfsskýrslum sem sendar eru UÍF 31. mars árinu á undan. Reikniforsendur skulu vera þær sömu og í 4. gr. úthlutunarreglna UÍF vegna styrks frá Fjallabyggð.

 

 

Þinghlé.   Í þinghlé voru veitingar í umsjón Skíðafélags Siglufjarðar.

 1. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.

Engin nefnd var að störfum nema kjörnefnd.

 1. Kosningar, álit kjörnefndar

Kosning formanns; Þórarinn Hannesson bauð sig fram og komu engin mótframboð.  Var hann kosin einróma og telst rétt kjörinn formaður.

Þeir sem voru í framboði til stjórnarkjörs kynntu sig. Kosið var um tvo aðalmenn og tvo til vara. Merkt var við allt að fjóra einstaklinga á kjörseðli. Þá voru greidd atkvæði og kjörnefnd tók til starfa.

 1. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein laga UÍF

Atkvæði í stjórn UÍF voru eftirfarandi:

Anna Þórisdóttir með 23 atkvæði

Arnheiður Jónsdóttir með 21 atkvæði

Helga Hermannsdóttir með 18 atkvæði

Kristján Hauksson með 6 atkvæði

Þorvaldur Sveinn með 5 atkvæði

Kristín Anna Guðmundsdóttir með 4 atkvæði

Stefán Stefánsson með 4 atkvæði

 

Réttkjörnir aðalmenn eru því  Anna og Arnheiður. Varamenn eru Helga og Kristján.

 1. Kosning skoðunarmanna.

Lögð er fram tillaga um Ármann V. Sigurðsson og Þorgeir Bjarnason  samþykkt samhljóða.  Varamenn voru ekki tilnefndir.

 1. Önnur mál

Kristján Hauksson þakkaði fyrir traustið og hrósaði UÍF fyrir starfsemina svo og óskaði hann stjórninni til hamingju. Honum þótti gaman að sjá hversu ölfug starfsemin væri hjá aðildarfélögum.

Þórarinn þakkaði fyrir gott þing og þakkaði fyrir traustið sem stjórninni hafi verið sýnt og hlý orð. Hann vonastst til að geta eflt starf UÍF frekar. Það séu sveitarstjórnarkosningar framundan og því kjörið að láta í sér heyra. Öll félög hafi skilað góðum ársreikningum og séu með öfluga starfsemi.  Hann kvað alla geta verið ánægða með vel unnin störf. Þórarinn kvaðst hlakka til að starfa með nýrri stjórn og varmönnum en þeir séu alltaf boðaðir á alla fundi.  Jafnframt vonast hann til að hægt verði að funda oftar jafnt í báðum byggðarkjörnum en vegna aðstöðuleysis í Vallarhúsinu á Ólafsfirði hafi oftar verið fundað að Hóli. Loks þakkaði hann þingforseta og aðildarfélögum fyrir gott starf og Skíðafélagi Siglufjarðar fyrir veglegar veitingar.

Ársþingi UÍF var slitið kl. 20:46.

 

Þingfulltrúar:

Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar: María Jóhannsdóttir og Sigurlaug Ragna Guðnadóttir

Skíðafélag Ólafsfjarðar:  Kristján Hauksson og Sigurpáll Gunnarsson

Ungmennafélagið Glói:  Patrekur Þórarinsson

Íþróttafélagið Snerpa: Helga Hermannsdóttir

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg: Kristín A. Guðmundsdóttir og Jón Garðar Steingrímsson

Golfklúbbur Fjallabyggðar:  Rósa Jónsdóttir

KF: Steinar Svavarsson, Þorvaldur S. Guðbjörnsson, Haraldur Gunnólfsson, Gunnlaugur, Hörður Bjarnason, Þorsteinn Sigursveinsson, Magnús Þ. og Kjartan Helgason.

Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Hreinsson

Blakfélag Fjallabyggðar: Óskar Þórðarson

Skotfélag Ólafsfjarðar: G. Árni Kristinsson og Ingimundur Loftsson

Hestamannafélagið Glæsir: Dagbjört Ísfeld og Haukur Orri Kristjánsson

Golfklúbbur Siglufjarðar: Ólafur Kárason

Guðný Helgadóttir umsjónamaður Hóls.

Stjórn UÍF: Þórarinn Hannesson, Anna Þórisdóttir, Arnheiður Jónsdóttir og Óskar Þórðarson.

 

UIF notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

 • wordpress_test_cookie
 • wordpress_logged_in_
 • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á holl.tonaflod.is

• CookieConsent


Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur