Ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar var haldið kl. 18, þriðjudaginn 21. maí 2019 að Hóli, Siglufirði.

Dagskráin þingsins er eftirfarandi, sbr. 13. gr. laga UÍF:

  1. Formaður UÍF setur þingið.
  2. Kosning þingforseta og þingritara.
  3. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar.
  4. Álit kjörbréfanefndar.
  5. Lögð fram árskýrsla stjórnar svo og skoðaðir reikningar seinasta árs.
  6. Umræður um ársskýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
  7. Ávörp gesta.
  8. Kosning þingnefnda: kjörnefnd (3)
  9. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
  10. Tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar lagðar fram og vísað til nefnda.
  11. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

ÞINGHLÉ

  1. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.
  2. Álit kjörnefndar
  3. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein. Skal formaður kosinn sér, en hina í einu lagi. Stjórnin skiptir með sér verkum, í þau störf er um getur í 16. grein.
  4. Kosning skoðunarmanna, (tveir aðalmenn og tveir varamenn).
  5. Önnur mál.
  6. Þingslit.

 

Þingögn samanstóðu af  ársreikningi UÍF og fjárhagsáætlun svo og tillögu stjórnar að breytingum á reglum um Verkefnasjóð auk ársreikninga frá aðildarfélögum UÍF.

Fundargerð

  1. Formaður UÍF, Þórarinn Hannesson setti þingið; og bauð alla velkomna á ársþing UÍF. Hann bauð Viðar Sigurjónsson fræðslustjóra ÍSÍ og Hauk Valtýsson formann UMFÍ sérstaklega velkomna svo og Guðnýju Helgadóttur og Ríkey Sigurbjörnsdóttur deildarstjóra fræðslu-, frístunda og menningarmála hjá Fjallabyggð. Þórarinn óskaði öllum góðs þings og að þingfulltrúar myndu njóta veitinga sem Blakfélag Fjallabyggðar hafi séð um.

 

  1. Kosning þingforseta og þingritara.

Stungið var upp Sigurpáli Gunnarssyni sem þingforseta og Brynju Ingunni Hafsteinsdóttur sem þingrita.  Það var samþykkt einróma.

Þingforseti tók þá til máls, þakkaði traustið og bauð gesti velkomna.

 

  1. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar.

Stungið var upp á Helgu Hermannsdóttir formanni Snerpu og að með henni í nefndinni yrðu Rósa Jónsdóttir formaður GFB og  Þorvaldur Sveinn Guðbjartsson formaður KF.

Það var samþykkt einróma.

 

  1. Álit kjörbréfanefndar.

Á meðan kjörbréfanefnd fór yfir kjörbréfin kynnti þingið sér gögn þingsins.

Þá kynnti Rósar Jónsdóttir formaður kjörbréfanefndar álit nefndarinnar.

Af 34 skráðum fulltrúum samkvæmt kjörbréfum voru 27 mættir.  Kjörbréfnefndin sá ekkert athugavert við kjörbréfin og telur þau gild.  Var það samþykkt.

 

  1. Lögð fram ársskýrsla stjórnar og skoðaðir reikningar síðasta árs.

Þórarinn formaður UÍF flutti skýrslu stjórnar.  Hann fór yfir hverjir sætu í stjórn UÍF og helstu störf og verkefni hennar. Starfsemin hafi snúið að hefðbundnum og lögbundnum hlutverkum sambandsins s.s.  að vera málsvari íþróttahreyfingarinnar út á við, eiga samskipti við ÍSÍ, UMFÍ og sveitarfélagið og deila út fjármunum frá þessum aðilum til aðildarfélaganna eftir þeim reglum sem íþróttahreyfingin hefur sett sér. Aðildarfélögum var veitt aðstoð við að yfirfara lög sín,  stjórn UÍF veitti umsagnir varðandi ýmis íþrótta tengd málefni auk þess að standa fyrir viðburðum til að kynna íþróttastarf í sveitarfélaginu og auka almenna hreyfingu íbúa. Auk þess hafi UÍF staðið að vali á íþróttamanni ársins í góðu samstarfi við Kiwanisklúbbinn Skjöld.

 

Fjallaði Þórarinn einnig um samskipti UÍF við sveitarfélagið en þau hafi verið góð. Hækkun frístundastyrks, stórbætt aðstaða til líkamsræktar í báðum bæjarkjörnum svo og uppsetning á köldum körum og gufu í báðum sundlaugum eru dæmi um jákvæð framfaraskref.  Frítímareglur voru einnig endurskoðaðar og var komið að nokkru leyti til móts við óskir íþróttahreyfingarinnar um að mótahald í íþróttamannvirkjum félli undir frítíma. Til að standast samanburð við þau sveitarfélög sem við berum okkur saman við þarf þó að gera betur. Þórarinn sagði frá aðkomu íþróttahreyfingarinnar að Frístund sem er fjölbreytt dagskrá fyrir nemendur í 1-4. bekk GF að loknum skóladegi.  Aðildarfélög hafa boðið upp á æfingar í Frístund og hefur það mælst vel fyrir.  Erfitt sé að sjá þessa dagskrá ganga upp án aðkomu íþróttahreyfingarinnar.

 

Fjallabyggð er Heilsueflandi samfélag en í júní var skrifað undir samning þar að lútandi við embætti Landlæknis. Hafði UÍF lagt áherslu á að taka þátt í þessu verkefni.  Stigin hafi verið nokkur skref til að auka möguleika íbúa á hreyfingu t.a.m. fjölgun bekkja á gönguleiðum, uppsetning ærslabelgja og  gjaldfrjálsir danstímar. Þórarinn fjallaði um samskipti við bæjaryfirvöld vegna Hóls sem hafa breyst. Íþróttatengt starf hefur minnkað að Hóli þar sem knattspyrnuæfingar fara að mestu fram á Ólafsfirði og komin er nýr golfvöllur. Sveitarfélagið greiðir því ekki lengur fyrir afnot af húsnæðinu eða viðhald. Samfara þessu breytingum hefur afsali eignarinn verið breytt þannig að íþróttahreyfingin hefur fullan eignarrétt á eigninni.

 

Þórarinn sagði nánar frá íþróttamiðstöðinni að Hóli en húsnæðið brann fyrir nokkrum árum. Uppbyggingin síðast liðin ár hefur gengið vel.  Á árinu var klárað að greiða upp lán sem tekið hafið verið vegna endurbótanna og er því hægt að huga að frekari framkvæmdum.  Ákveðið hefur verið að laga frárennsli frá húsinu og endurbæta skemmu. Í framhaldin af því standa vonir til að hægt verði að klára að klæða skemmuna og milligang. Skemman hefur verið leigð út í vetur. Íbúðarhúsið er í góðu standi og munar mikið um að hafa hitaveitu. Útleigan á Hóli er mikil og húsið og umhverfi þess er vinsælt fyrir ættarmót og aðra stóra viðburði. Íþróttahreyfingin hefur aðgang að Hóli til fundarhalda og einstakra viðburða fyrir iðkendur. Þórarinn þakkaði Guðnýju Helgadóttir fyrrverandi formanni UÍF og Andrési Stefánssyni fyrir vel unnin störf en Guðný er umsjónarmaður Hóls. Fyrirspurnir hafa borist um möguleik kaup á Hóli og hefur umræða þar að lútandi verið tekin á formannafundum svo og ársþingum. Niðurstaðan hafi ávallt verið sú að íþróttahreyfingin ætti að eiga húsnæðið áfram. Þórarinn telur að virði eignarinnar sé mikið í íþrótta-og félagslegu tilliti og að fjárhagslegt virði hennar hafi vaxið töluvert á síðustu árum og muni vaxa enn, m.a. með tilkomu nýja golfvallarins, nálægð við skíðasvæðið og fleiri þátta.

 

Fjallaði Þórinn um endurskoðun á reglum um bæjarstyrk og Verkefnasjóð. Á síðasta ársþingi voru gerðar breytingar á reglum um bæjarstyrk þannig að iðkendur eru taldir  aðeins einu sinni í reikningsforritinu. Var úthlutað samkvæmt þessum reglum á síðasta ári og verður aftur í ár. Fellt var út ákvæði um lágmarksfjölda iðkenda og eru námskeið styrkhæf. Bæjarstyrkurinn er eingöngu ætlaður til barna- og unglingastarfs svo og fatlaðra og aldraðra. UÍF er treyst til að skipta styrknum á sem sanngjarnastan hátt milli aðildarfélaga þannig að úthlutun endurspegli starfsemi félaganna.  Upphæð styrk bæjarins hefur verið sú sama frá stofnun UÍF, þ.e. um 6.5 milljónir á ári. Á þessu ári hækkaði hann um eina milljón og er von á frekari hækkun. Er það ánægjulegt enda er öflugt barna- og unglingastarf besta forvörn sem nokkuð sveitarfélag getur haft.  Síðar á fundinum verða lagðar fram tillögur stjórnar að breytingar á reglum um Verkefnasjóð. Breytingunum er bæði ætlað að koma til móts við almennt félagsstarf aðildarfélaga svo og afreksfólk.

 

Frétta- og fræðslusíða UÍF hefur verið á facebook frá árslokum 2016 og flutt reglulegar fréttir af starfsemi aðildarfélaga og íþróttalífinu í Fjallabyggð. Fylgjendur eru um 300 og viðtökur góðar. UÍF væntir þess að fréttaflutningur af starfsemi aðildarfélaga komi til með að fjölga iðkendum og styrkja félögin t.am. við styrkumsóknir.  Með tilkomu síðunnar varð UÍF sýnilegra og aðildarfélög hafa fengið góða kynningu á starfi sínu.

 

Í samstarfi við Kiwanisklúbbinn Skjöld hefur UÍF staðið fyrir vali á íþróttamanni Fjallabyggðar auk þess að verðlauna efnilegasta og besta íþróttafólk sveitarfélagsins í einstökum greinum. Athöfnin fór fram í Tjarnarborg og var hin glæsilegasta. Er nefndinni sem sá um athöfnina færðar bestu þakkir.  Elsa Guðrún Jónsdóttir skíðagöngukona var valin íþróttamaður ársins þriðja árið í röð og var henni óskað til hamingju.

 

Vetrarleikar hafa verið haldnir frá árinu 2011 en markmið þeirra er að auka áhuga íbúa sveitarfélagsins á hreyfingu og kynnast starfi aðildarfélaga UÍF. Árið 2018 var dagskrá eina helgi á Siglufirði og aðra helgi á Ólafsfirði. Gekk það vel og tóku mörg félög þátt. Fjallabyggð bauð frítt í sund sitt hvoru megin. Í ár varð því miður ekkert af Vetrarleikum.

 

Formannafundir voru að venju haldnir að vori og hausti og fór þar einnig fram kynning á Felix.

 

Mikil umræða hefur verið innan íþróttahreyfingarinnar um bæði persónuvernd og kynferðislegt ofbeldi. Metoo umræðan hefur einnig tengst íþróttahreyfingunni og ljóst að vitundarvakningar var þörf. Hefur íþróttahreyfingin tekið á þessum málum af festu eins og önnur stjórnvöld. Gagnlegt efni um þessi málefni má finna á heimasíðu ÍSÍ. Persónuupplýsingar lúta m.a. að myndbirtingum á facebook og heimasíðum félaga. Búið er að gefa út leiðbeiningar sem hægt er að nálgast bæði hjá ÍSÍ og UMFÍ.

 

Stjórn UÍF fundar amk. einu sinni í mánuði og oftar ef þörf þykir. Stjórnarmenn sækja einnig fundi utan héraðs. Formaður sat Vorfund UMFÍ á Sauðárkróki  svo og samráðsfund UMFÍ á Ísafirði. Starfsmaður stjórnar sat fund ÍSÍ um framtíðarskipulag íþróttamála í Reykjavík. Mæting á slíka fundi er mikilvæg til að fylgjast með, vera sýnileg og kynna starfsemi UÍF  svo og til að hafa áhrif.  Lottógreiðslur skerðast t.d.  ef ekki er mætt á suma af þessum fundum.

 

UÍF hefur verðlaunað nemendur sem hafa náð góðum námsárangri í íþróttum og útivist í GF og MTR. Hafa nokkrir nemendur verið verðlaunaðir nú þegar.  Draumur UÍF hefur verið að vera með starfsmann í hlutastarfi til að vinna að málefnum íþróttahreyfingarinnar, gera þau markvissari og aðstoða íþróttafélögin í ýmsum málefnum. Rætt hefur verið óformlega við Fjallabyggð um að UÍF tæki að sér verkefni sem snerta íþróttamál og nú eru unnin af starfsmönnum sveitarfélagsins. Stjórn UÍF er tilbúin til að eiga samtal við sveitarfélagið um mögulega yfirfærslu þessara verkefna.

 

Starfsemi íþróttahreyfingarinnar er mjög blómleg í Fjallabyggð, árangur er góður í mörgum greinum og iðkendur skipta hundruðum. Þetta væri ekki hægt án fórnfúss starfs fjölda fólks og þakkaði Þórarinn fyrir hönd stjórnar UÍF öllum sem lagt hafa hönd á plóginn fyrir fórnfúst starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

 

Loks áréttaði Þórarinn það sem hann tilkynnti á síðasta formannafundi að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku. Hann hafi gengt formennsku í þrjú ár og setið í stjórn UÍF sjö af þeim tíu árum sem sambandið hafi starfað.

Þórarinn formaður UÍF gerði, í forföllum gjaldkera, jafnframt grein fyrir ársreikningi UÍF.

Rekstrartekjur UÍF voru:  25.550.850 kr.

Rekstrargjöld voru:   23.578.671 kr.

Hagnaður ársins var: 1.972.179 kr.

Varanlegir rekstrarfjármunir voru:  34.559.490 kr.

Veltufjármunir voru:  45.672.484 kr.

Eigið fé var:  44.567.453 kr.

Langtímalán var: 0 kr.

Skammtímaskuldir voru: 1.105.031 kr.

 

  1. Umræður um ársskýrslu og reikninga fóru fram og voru svo lagðir fram til samþykktar.

Forseti gaf orðið laust um reikninga og skýrslu UÍF.   Enginn tók til máls. Sigurpáll þakkaði fyrir góða skýrslu og ársreikninga. Kristján Hauksson ræddi um sundurliðunina og saknaði þess að sjá hana ekki. Þakkaði fyrir gott starf.

Ársreikningur UÍF lagður fram til samþykktar.  Var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

 

  1. Ávörp gesta.

Viðar Sigurjónsson fulltrúi ÍSÍ þakkaði fyrir gott þing. Hann benti á að skýrslu stjórnar þurfi ekki að samþykkja heldur aðeins að umræður fari fram. Aðeins þarf að samþykkja reikninga. Hann flutti kveðja frá forseta ÍSÍ og framkvæmdastóra svo og starfsfólki. Íþróttaþing ÍSÍ er nýlokið og þar voru nokkrar samþykktir samþykktar og hvatti hann UÍF til að kynna sér þær. Umdeildasta tillagan var Felix en mikið vesen hefur verið með forritið og erfitt að læra á það og nota. Samþykkt að skoða hvort að hægt væri að koma Felix í það ástand að hann væri nothæfur eða að skipta honum út fyrir kerfi sem starfar betur. Margt gott við Felix en margir hnökrar.  Viðar fjallaði einnig um þjálfaramenntun ÍSÍ sem er í fjarnámi á vor og haust önn. Hvatti félögin til að senda sína þjálfara það gagnaðist öllum. Sérgreinaþátturinn er síðan tekin hjá viðkomandi sérsambandi ÍSÍ, nema KSÍ.  Fyrirmyndarfélög ÍSÍ eru líka á könnu Viðars. Aðildarfélög UÍF hafa fengið þessa viðurkenningu. Starf hefur oftar en ekki batnað við að fá þessa viðurkenningu. Héraðsambönd hafa einnig fengið viðurkenningu sem fyrirmyndar íþróttahéruð og hefur þeim fjölgað. Fleiri héraðssambönd eru að vinna í þessu þar með talið UÍF. Starf UÍF er kraftmikið. Hvatti hann stjórn áfram til góðra verka.

Haukur Valtýsson formaður UMFÍ ávarpaði þingið og færði þinginu bestu óskir frá stjórn og starfsfólki þjónustumiðstöðvar UMFÍ.  Hann hefur sótt nokkur ársþing UÍF og telur mikilvægt að heimsækja fólkið heima í héraði. Þar sé grasrótin. Hann þakkaði Þórarni fyrir samstarfið undangengin ár.  Hann benti á að samstarf við aðra víkki sjóndeildarhringinn. Stjórnarfólk úr UMFÍ sé að fara í ferð til Danmerkur og kynnast starfi hreyfingarinnar þar. Með slíku samstarfi kynnist fólk betur og getur leitað til hvers annars.  Hann þakkaði fyrir skýrslu stjórnar UÍF og vel uppsetta reikninga.

Haukur tók undir að miklir fjármunir hafi farið í Felix og þeir hafi skilað litlu. Miklir hnökrar sem hafa verið að trufla fólk. Hann fagnar því að verið sé að kanna hvort að hægt sé að nota Felix eða fara aðra leið.

Landsmót 50 plús verði haldið á Neskaupsstað.  Hvert mót er með sín sérkenni.  Hvatti UÍF til að auglýsa þessi mót á sínu svæði. UÍF ætti jafnframt að huga að því að sækja um að halda slíkt mót. Aðstæður hér myndu henta vel. Það væri líka hægt að fá nágranna í lið mér sér.

Unglingalandsmót UMFÍ verði haldið í sumar á Höfn í Hornafirði. Þar sé vant fólk og hvatti hann alla til þátttöku. Eitt stærsta forvarnarverkefni sem er í starfi í landinu. Hvetja börn og unglinga ásamt foreldrum til þátttöku. Unglingalandsmót er framlag UMFÍ til að efla og bæta lýðheilsu í landinu. Börn ánetjast síður fíkniefnum eftir því sem þau eru lengur með foreldrum og sínum nánustu.

UMFÍ hefur lagt áherslu á að ná til nýbúa en að taka þátt í íþróttastarfi gerir þeim kleift að kynnast betur samfélaginu. Styrkir voru veittir til fimm sambandsaðila vegna slíks verkefnis og hefur menntamálaráðherra einnig veitt styrki til málefnisins.

Haukur benti á heimasíðu UMFI sem er lifandi og hægt að fylgjast með starfsemi samtakanna m.a. um sjóði sem sækja má í.

Loks hvatti Haukur alla til að taka þátt í íþróttastarfi og hafa gaman af.

Viðar tók aftur til máls en hann gleymdi embættisverki sínu. Hann heiðraði fráfarandi formann Þórarinn Hannesson með silfurmerki ÍSÍ.

 

  1. Kosning þingnefnda.

Forseti óskaði eftir tillögum um þrjá aðila í kjörnefnd.  Lagt er til að Þorvaldur Hreinsson,  María Jóhannsdóttir og Kristján Hauksson taki sér nefndarstörf og var það samþykkt samhljóða.

 

  1. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Þórarinn kynnti fjárhagsáætlunina og fór yfir hana lið fyrir lið. Tekjur verða alls 26.700.000 kr. og gjöld verða samtals 26.700.000 kr. Fjárhagsáætlunin var síðan samþykkt.

 

  1. Tillögur og önnur máls sem borist hafa til stjórnar.

Engar tillögur bárust til stjórnar.

 

  1. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

Stjórn UÍF lagði til breytingar á reglum um Verkefnasjóð. Óskar fór yfir tillögurnar. Þórarinn sagði að reynt hefði verið að aðlaga reglurnar að því starfi sem fari fram hjá aðildarfélögum en t.a.m. hafi aukist að iðkendur séu valdir í úrvalshópa hjá sérsamböndum. Félagslegi þátturinn sé líka inni og  geta félögin sótt um styrk til að gera eitthvað skemmtileg með iðkendum. Hluti af bæjarstyrknum rennur í Verkefnasjóð. Styrkpotturinn hafi aldrei tæmst og sé nóg fjármagn í honum núna. Hvatti hann félögin til að sækja um styrk í sjóðinn.

Jón Garðar spurði um þörfina á styrkjum úr Verkefnasjóð og hvort ekki mætti útdeila þessum peningum beint til félaga. Þórarinn svaraði því að sjóðurinn væri meiri hvatning fyrir félögin. Þarna geta þau sótt um aukafjármagn til menntunar þjálfara og dómara. Þorvaldur spurði hvað mikið hafi verið í sjóðnum á síðasta ári.  Það var um 900.000 kr. Þorvaldur velti fyrir sér hvort að eðlilegra væri að það væru tvær dagsetningar á úthlutun ef að félögin skyldu gleyma sjóðnum. Óskar svaraði því að það sé fjallað um sjóðinn á formannafundum og ársþingi. Þorvaldur velti fyrir sér hvort að ekki sé gott að styrkþega sé getið. Var tekið vel í þá hugmynd.

Tillögur stjórnar UÍF að breytingum á 2. og 6. gr. reglna um Verkefnasjóð eru eftirfarandi:

  1. gr.

Markmið sjóðsins er:

  • Að veita aðildarfélögum UÍF styrki til að viðhalda öflugu íþrótta- og félagsstarfi.
  • Að veita iðkendum aðildarfélaga UÍF sem skara fram úr viðurkenningu og stuðning til þjálfunar vegna þátttöku í mikilvægum mótum.
  • Að styrkja verkefni aðildarfélaga UÍF sem tengjast heilsu og forvarnarstarfi.

 

6.gr.

Styrkhæf verkefni eru m.a.

  • Þáttöku- eða námskeiðsgjald við menntun þjálfara og dómara (allt að 100% af kostnaði)
  • Ferða- og gistikostnaður við menntun þjálfara og dómara (allt að 75% af kostnaði)
  • Gjald vegna æfinga- og keppnisferðaá vegum sérsambanda (allt að 75% af kostnaði)
  • Ferða- og gistikostnaður vegna æfinga- og keppnisferða á vegum sérsambanda (allt að 75% af kostnaði)
  • Ferða- og gistikostnaður vegna þjálfara í æfinga- og keppnisferða erlendis (allt að 75% af kostnaði)
  • Viðurkenning til íþróttamanns Fjallabyggðar (100.000)

 

Sjóðurinn styrkir ekki áhalda- og búnaðarkaup vegna íþróttaiðkunar né mannvirkjagerð.

Tillaga stjórnar samþykkt. Á fundinum var einnig lagt til að bæta við 5. gr. reglnanna: „Úthlutunum úr sjóðnum skal sundurliða í skýrslu stjórnar ásamt heiti verkefnis“.

 

Breytingatillögur samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.  Ákvæði 2. gr., 5. gr. og 6. gr. reglna um Verkefnasjóð verða þá svohljóðandi:

 

  1. gr.

Markmið sjóðsins er:

  • Að veita aðildarfélögum UÍF styrki til að viðhalda öflugu íþrótta- og félagsstarfi.
  • Að veita iðkendum aðildarfélaga UÍF sem skara fram úr viðurkenningu og stuðning til þjálfunar vegna þátttöku í mikilvægum mótum.
  • Að styrkja verkefni aðildarfélaga UÍF sem tengjast heilsu og forvarnarstarfi.

 

  1. gr.

Höfuðstóll verkefnasjóðsins skal aldrei vera lægri en kr. 400.000 eftir úthlutun.

Stjórn UÍF skal gera grein fyrir stöðu sjóðsins í ársreikningum. Úthlutunum úr sjóðnum skal sundurliða í skýrslu stjórnar ásamt heiti verkefnis.

  1. gr.

Styrkhæf verkefni eru m.a.

  • Þáttöku- eða námskeiðsgjald við menntun þjálfara og dómara (allt að 100% af kostnaði)
  • Ferða- og gistikostnaður við menntun þjálfara og dómara (allt að 75% af kostnaði)
  • Gjald vegna æfinga- og keppnisferða á vegum sérsambanda (allt að 75% af kostnaði)
  • Ferða- og gistikostnaður vegna æfinga- og keppnisferða á vegum sérsambanda (allt að 75% af kostnaði)
  • Ferða- og gistikostnaður vegna þjálfara í æfinga- og keppnisferða erlendis (allt að 75% af kostnaði)
  • Viðurkenning til íþróttamanns Fjallabyggðar (100.000 kr.)

Sjóðurinn styrkir ekki áhalda- og búnaðarkaup vegna íþróttaiðkunar né mannvirkjagerð.

 

Þinghlé.   Í þinghlé voru veitingar í umsjón Blakfélags Fjallabyggðar.

 

  1. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.

Engin nefnd var að störfum nema kjörnefnd.

 

  1. Kosningar, álit kjörnefndar

Kosning formanns; Jónína Björnsdóttir bauð sig fram og komu engin mótframboð.  Var hún kosin einróma og telst rétt kjörinn formaður.

Þeir sem voru í framboði til stjórnarkjörs kynntu sig. Kosið var um tvo aðalmenn og tvo til vara. Merkt var við allt að fjóra einstaklinga á kjörseðli. Þá voru greidd atkvæði og kjörnefnd tók til starfa.

 

  1. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein laga UÍF

Atkvæði í stjórn UÍF voru eftirfarandi:

Óskar Þórðarson með 26 atkvæði.

Eva Björk Ómarsdóttir með 22 atkvæði

Margrét Sigmundsdóttir með 18 atkvæði

Jóhann Már Sigurbjörnsson með 10 atkvæði

Guðrún Linda Rafnsdóttir með 9 atkvæði

Dagbjört Ísfeld Guðmundsdóttir með 7 atkvæði

Þorsteinn Sigursveinsson með 6 atkvæði

Jón Garðar Steingrímsson með 5 atkvæði

Sæmundur P. Jónsson með 3 atkvæði

Ásgrímur Pálmason með 1 atkvæði

 

Réttkjörnir aðalmenn eru því  Óskar og Eva Björk. Varamenn eru Margrét og Jóhann Már.

  1. Kosning skoðunarmanna

Lögð er fram tillaga um Ármann V. Sigurðsson og Þorgeir Bjarnason  samþykkt samhljóða.  Varamenn voru tilnefndir Sigurður Gunnarsson og Dagný Finnsdóttir.

 

  1. Önnur mál

Kristján Hauksson hrósaði UÍF fyrir starfsemina og óskaði nýkjörinni stjórn til hamingju. Honum þykir gaman að sjá hversu öflug starfsemin væri hjá aðildarfélögum og fagnaði fræðslu- og fréttasíðu UÍF á facebook. Hann þakkaði Þórarni sérstaklega fyrir vel unnin störf, einurð og áhuga.

Þórarinn þakkaði fyrir gott þing og þakkaði fyrir góð ár með UÍF. Hann þakkaði fyrrverandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið og kvaðst hugsa til þeirra þegar hann væri í Kaupmannahöfn eftir viku.  Orti hann í tilefni þess:

Núna er ég sem fuglinn frjáls,

fer ei með neinu þjósti

sveifla stéli og sveigi háls

með silfur í hári og brjósti.

 

Ársþingi UÍF var slitið kl. 20:45.

Þingfulltrúar:

Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar: María Jóhannsdóttir og Sigurður Steingrímsson

Skíðafélag Ólafsfjarðar:  Kristján Hauksson og Sigurpáll Gunnarsson

Ungmennafélagið Glói:  Kristín Anna Guðmundsdóttir og Guðmundur Óli Sigurðsson

Íþróttafélagið Snerpa: Helga Hermannsdóttir og Þórey Guðjónsdóttir

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg:  Jón Garðar Steingrímsson, Anna María Björnsdóttir og Þorgeir Bjarnason

Golfklúbbur Fjallabyggðar:  Rósa Jónsdóttir

KF: Þorvaldur S. Guðbjörnsson, Hörður Bjarnason, Þorsteinn Sigursveinsson, Magnús Þorgeirsson, Gunnlaugur Sigursveinsson og Dagný Finnsdóttir.

Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Hreinsson

Blakfélag Fjallabyggðar: Sigríður Ósk Salmannsdóttir

Skotfélag Ólafsfjarðar: Georg D. Kristinsson og Ingimundur Sigurðsson

Hestamannafélagið Glæsir: Stefán Stefánsson og Elín Kjartansdóttir

Golfklúbbur Siglufjarðar: Jóhann Már Sigurbjörnsson og Sævar Örn Kárason

 

Stjórn UÍF: Þórarinn Hannesson, Anna Þórisdóttir, Arnheiður Jónsdóttir og Óskar Þórðarson.

Aðrir: Ríkey Sigurbjörnsdóttir og Guðný Helgadóttir

Fundarritari fær heimild fundarins til að ganga frá fundargerð.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir (sign.)

 

 

 

 

UIF notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á holl.tonaflod.is

• CookieConsent


Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur