Ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar var haldið þriðjudaginn 24. maí 2022, kl. 18, í Vallarhúsinu, Ólafsfirði.

Dagskráin þingsins er eftirfarandi, sbr. 13. gr. laga UÍF:

 1. Formaður UÍF setur þingið.
 2. Kosning þingforseta og þingritara.
 3. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar.
 4. Álit kjörbréfanefndar.
 5. Lögð fram árskýrsla stjórnar svo og skoðaðir reikningar seinasta árs.
 6. Umræður um ársskýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
 7. Ávörp gesta.
 8. Kosning þingnefnda: kjörnefnd (3)
 9. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
 10. Tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar lagðar fram og vísað til nefnda.
 11. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.
 12. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.
 13. Álit kjörnefndar
 14. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein. Skal formaður kosinn sér, en hina í einu lagi. Stjórnin skiptir með sér verkum, í þau störf er um getur í 16. grein.
 15. Kosning skoðunarmanna, (tveir aðalmenn og tveir varamenn).
 16. Önnur mál.
 17. Þingslit.

 

Þingögn samanstóðu af ársreikningi UÍF og fjárhagsáætlun svo og tillögum stjórnar til breytinga á reglum um Frístunastyrk, ráðningu starfsmanns og skipunar vinnuhóps um Hólspeningana auk ársreikninga frá aðildarfélögum UÍF.

Fundargerð

 1. Formaður UÍF, Jónína Björnsdóttir setti þingið; og bauð alla velkomna á ársþing UÍF. Hún bauð Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ og Hauk Valtýsson fv. formann UMFÍ sérstaklega velkomna svo og Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóra fræðslu- og frístundamála Fjallabyggðar.

                                                                                                                               

 1. Kosning þingforseta og þingritara; Stungið var upp Óskari Þórðarsyni sem þingforseta og Brynju Ingunni Hafsteinsdóttur sem þingrita. Það var samþykkt einróma.

Þingforseti tók þá til máls, þakkaði traustið og bauð gesti velkomna.

 1. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar; Stungið var upp á Rögnvaldi Jónssyni stjórnarmanni Skotfélags Ólafsfjarðar og að með honum í nefndinni yrðu Rósa Jónsdóttir formaður GFB og María Jóhannsdóttir stjórnarmaður TBS.

Það var samþykkt einróma.

 1. Álit kjörbréfanefndar.

Þá kynnti Rósar Jónsdóttir formaður kjörbréfanefndar álit nefndarinnar.

Kjörbréf bárust frá öllum 13 aðildarfélögum. Af 33 skráðum fulltrúum samkvæmt kjörbréfum voru 23 mættir. Kjörbréfnefndin sá ekkert athugavert við kjörbréfin og telur þau gild.  Var það samþykkt.

 1. Lögð fram ársskýrsla stjórnar og skoðaðir reikningar síðasta árs.

Jónína formaður stjórnar UÍF flutti skýrslu stjórnar.  Hún fór yfir hverjir sætu í stjórn UÍF og helstu störf og verkefni hennar. Starfsemin hafi snúið að hefðbundnum og lögbundnum hlutverkum sambandsins s.s. að vera málsvari íþróttahreyfingarinnar út á við, eiga samskipti við ÍSÍ, UMFÍ og sveitarfélagið og deila út fjármunum frá þessum aðilum til aðildarfélaganna eftir þeim reglum sem íþróttahreyfingin hefur sett sér.

Einnig komi íþróttahreyfingin að Frístund, sem sé fjölbreytt dagskrá fyrir nemendur í fjórum yngstu bekkjum grunnskólans, að loknum skóladegi. Á síðasta ársþingi var samþykkt að setja Hól í söluferli og voru nokkrir áhugasamir kaupendur. Salan gekk eftir og var síðasta greiðsla greidd í apríl á þessu ári. Stjórn UÍF hefur því leigt Ljóðasetrið til fundarhalda og geymslu. Stjórn UÍF vill koma fram þakklæti til þeirra hjóna Guðnýjar og Andrésar fyrir þeirra framlag til sambandsins varðandi umsjón og rekstur Hóls.

Tveir formannafundir voru haldnir og þar voru m.a. ræddar reglur um Frístundastyrk og munu þær reglur vera til endurskoðunar hér á þinginu. Þá hefur umræðan um starfsmann farið fram á formannafundunum og í stjórn UÍF og verður þeirri umræðu haldið áfram á þinginu. Þess má geta að Brynja Hafsteinsdóttir eða „Annar skrifstofukostnaður“ er starfsmaður stjórnar og hennar hlutverk er að boða og undirbúa fundi stjórnar, formannafundi og ársþing, þó hún oft á tíðum sinni öðrum hlutverkum einnig.

Á árinu 2021 hófst vinna UÍF við að gerast Fyrirmyndarhéraðssamband en því miður gafst takmarkaður tími á árinu til að halda henni áfram en þó er sú vinna örlítið komin í gang.

Þá hófst vinnan við nýja heimasíðu UÍF og stefnt var að því að opna hana á þinginu en örlítil bið verður á því þar sem upplýsingar eru enn að berast frá aðildarfélögum og verið er að vinna úr þeim áður en síðan fer í loftið.

Val á íþróttamanni ársins fór fram í lok árs 2021 og var viðburðurinn haldin í Kiwanishúsinu á Siglufirði með ákveðnum takmörkunum vegna Covid. Hilmar Símonarson kraftlyftingamaður var valinn íþróttamaður ársins og Sólveig Anna Ingvarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir frábæran árangur en hún er að æfa badminton hjá BH. Hátíðin tókst vel í alla staði.

Stjórn UÍF fundar að jafnaði 1x í mánuði en oftar ef tilefni er til. Þá fóru stjórnarmenn á ýmsa fundi á vegum UMFÍ og ÍSÍ. Mæting á þá fundi er sambandinu mikilvæg, bæði til að fá innsýn í það sem er að gerast í íþróttahreyfingunni, kynna okkar starfsemi og hafa áhrif en einnig vegna Lottótekna en þær skerðast ef við mætum ekki á ákveðna fundi.

UÍF hefur verðlaunað nemanda við lok 10.bekkjar í grunnskóla Fjallabyggðar fyrir góðan árangur í íþróttum og verður engin breyting þar á í ár. Í fyrra hlaut Jón Frímann Kjartansson þá viðurkenningu.

Starf íþróttahreyfingarinnar í Fjallabyggð er blómlegt en litaðist að hluta til af Covid á árinu 2021, en staðan er orðin mun betri og spennandi tímar framundan.

En þetta starf væri ekki hægt án fórnfúss starfs fjölda fólks og vil ég, fyrir hönd UÍF, koma á framfæri kærum þökkum til  þess stóra hóps sjálfboðaliða.

Einnig vil ég þakka öllum samstarfsaðilum og þá sérstaklega stjórnum og félagsmönnum aðildarfélaganna fyrir gott og gæfuríkt samstarf.

 

Eva gjaldkeri UÍF gerði jafnframt grein fyrir ársreikningi UÍF.

Rekstrartekjur UÍF voru:  36.330.925 kr.

Rekstrargjöld voru:   33.390.605 kr.

Hagnaður ársins var: 2.940.320 kr.

Varanlegir rekstrarfjármunir voru:  0 kr.

Veltufjármunir voru:  74.682.854 kr.

Eigið fé var:  74.209.724 kr.

Skammtímaskuldir voru: 473.130 kr.

 

 1. Umræður um ársskýrslu og reikninga fóru fram og voru svo lagðir fram til samþykktar.

Forseti gaf orðið laust um reikninga og skýrslu stjórnar UÍF.   Litlar umræður voru um reikningana. Óskar þakkaði fyrir góða skýrslu og ársreikninga.

Ársreikningur UÍF lagður fram til samþykktar.  Var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

 1. Ávörp gesta.

Haukur Valtýsson fv. formaður UMFÍ ávarpaði þingið og færði þinginu bestu óskir frá stjórn og starfsfólki þjónustumiðstöðvar UMFÍ. Síðustu tvö ár hafa verið afar krefjandi en þau hafa þó eflt samtakamaátt hreyfingarinnar og allir orðið sterkari á eftir. Haukur fór yfir að aðildarfélög og íþróttahéruð hafa samfélags hlutverk og skyldur.  Þau sinni fjölbreyttum þáttum í sínu samfélagi. Á covid tímum hafi verið unnið að nýrri stefnumótun UMFÍ og var markmiðið m.a. að gera hreyfinguna að virkum þátttakanda í samræðum og gera hana samstiltari. UMFÍ leggur áherslu á að allir geti tekið þátt í íþrótta og æskulýðsstarfi. Hann hvatti fundarmenn til að kynna sér þessa nýju stefnu sem sé inn á heimasíðu UMFÍ. Viðburðum hefur verið frestað sl. tvö ár en nú verður breyting þar á.  Hann sagði frá þeim viðuburðum UMFÍ sem framundan eru á árinu. Einnig sýndi hann stutt myndbönd frá UMFÍ um viðburði á árinu. Hann hvatti alla til að taka þátt í þessum viðburðum. Um er að ræða forvarnarviðburði.  Haukur hvatti líka alla til að taka þátt í lottó og getspá og forðast erlendar veðmálasíður enda renni ekkert til íþróttahreyfingarinnar með þátttöku þar. Sagði hann frá því að nýbúið væri að selja húsnæði UMFÍ og leit stæði yfir að nýju húsnæði til kaups eða leigu.  Loks þakkaði Haukur öllum sjálfboðaliðum sem bera uppi starf íþróttahreyfingarinnar.

Viðar Sigurjónsson fræðslustjóri ÍSÍ tók einnig til máls og þakkaði fyrir gott þing. Hann flutti kveðja frá forseta ÍSÍ og framkvæmdastjóra svo og starfsfólki öllu. Viðar sagði frá Sportabler og kvað engan sakna Felix. Öll félög skila inn í Sportabler gögnum um starfsemi þeirra.  Hann vonaði að þetta kerfi væri betra í notkun en Felix. Starfshópur var skipaður af ÍSÍ eftir síðasta íþróttaþing og var honum ætlað að fjalla um verkferla og vinnubrögð innan hreyfingarinnar s.s. um ofbeldi. Starfshópurinn komst að því að þetta væri ekki hægt en engu að síður vann hópurinn góða vinnu og skilaði inn tillögum í sjö liðum. Verður haldið áfram að vinna í þessu og í gegnum samskiptaráðgjafa sem er á vegum ráðuneytisins. Fleiri vinnuhópar eru í gangi. Verkefni Viðars eru þjálfaramenntun ÍSÍ og hafa aðildarfélög UÍF sent þjálfara á þessi námskeið.  Nokkrir foreldrar hafa líka tekið þátt til að geta rætt betur við þjálfara um starfið o.fl.  Nánast 100% ánægja er með þessi námskeið hjá þátttakendum.  KSÍ er með sitt eigið menntakerfi svo og Golfsambandið. Fyrirmyndafélag og fyrirmyndarhérað er einnig á könnu Viðars. UÍF er að vinna að því að verða Fyrirmyndarhérað.  Fjögur aðildarfélög UÍF voru með viðurkenninguna en aðeins eitt er með hana enn í gildi.

Ríkey Sigurbjörnsdóttir þakkaði fyrir boðið og var hún ánægð að hafa komst. Hún þakkaði fyrir gott samstarf við aðildarfélögin og stjórn UÍF og vonast til að samstarfið haldi áfram að styrkjast. Hún minntist á frístund sem framúrskarandi samstarf sveitarfélags og aðildarfélaga svo og Sportabler. Frístundaávísanir eru nú rafrænar og hefur tekist vel að vinna að því þrátt fyrir nokkra hnökra.  Hún hét því að vinna áfram náið með aðildarfélögum í Fjallabyggð.

 1. Kosning þingnefnda.

Forseti óskaði eftir tillögum um þrjá í kjörnefnd.  Lagt er til að Kristján Hauksson, Jón Garðar Steingrímsson og Jóhann Már Sigurbjörnsson taki sér nefndarstörf og var það samþykkt samhljóða.

 1. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Óskar kynnti fjárhagsáætlunina og fór yfir hana lið fyrir lið. Tekjur verða alls 36.330.0925 kr. og gjöld verða samtals 34.506.605 kr. Fjárhagsáætlunin var síðan samþykkt.  Styrkur Fjallabyggðar er 11.730.000 kr. árið 2022.

 1. Tillögur og önnur máls sem borist hafa til stjórnar.

Engar tillögur bárust til stjórnar.

 1. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

Reglur um frístundastyrk; Hestamannafélagið Gnýfari og Glæsir lögðu fram tillögur að breytingum á Frístundastyrk. Stjórn UÍF lagði fram tillögu sem tekur miða af tillögum hestamannafélaganna.  Óskar fór yfir tillögurnar.  Var farið yfir ákvæði 3. gr. og 7. gr. og þær breytingar sem lagðar eru til á þeim.

3.gr.

Hverju aðildarfélagi er úthlutað 20.000 kr. án umsóknar. Umsóknir um Frístundastyrk þurfa að berast fyrir 31. janúar ár hvert. Styrkur til hvers félags er að hámarki 350.000 kr. og getur hvert félag sótt um styrk vegna þriggja verkefna.

 

Af heildarupphæð styrks renna 7% til umsýslu og reksturs UÍF.

SÓ velti vöngum um úthlutun til aðildarfélaga á 20.000 kr.. Var sú tillaga felld með 13 atkvæðum móti 6 sem voru með.  Næst var lagt til að hvert félag gæti sótt um styrk að hámarki 350.000 kr. alls. Var samþykkt samhljóða.  Næst var farið yfir tillögur að breytingum á 7. gr. um að styrkur yrði greiddur til allra umsækjanda í jöfnum hlutföllum.

 1. gr.

Fari umsóknir yfir heildarstyrkfjárhæð verður styrkur greiddur til umsækjenda í jöfnum hlutföllum. Verði allri styrkupphæðinni  ekki úthlutað rennur fjárhæðin til úthlutunar árið eftir.   Úthlutanir verða birtar á árþingi UÍF.

 

Lagt var til að breyta orðalagi greinarinnar og var það samþykkt samhljóða.

Allar breytingar á reglunum voru síðan samþykktar samhljóða og eru reglurnar þá svohljóðandi.

Reglur um úthlutun Ungmenna-og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF) á frístundastyrk Fjallabyggðar.

 

 1. gr.

Reglur þessar gilda um úthlutun styrks Fjallabyggðar til frístundamála, frístundastyrks. Heildarfjárhæð styrksins ræðst af framlagi Fjallabyggðar hverju sinni. Tilgangur reglna um frístundastyrk er að gera aðildarfélögum kleift að byggja upp, viðhalda og bæta öflugt íþróttastarf þeirra.

 

 1. gr.

Þau aðildarfélög UÍF sem mætt hafa á ársþing UÍF árið á undan og skilað starfsskýrslum til UÍF geta sótt um styrki.

 

 1. gr.

Umsóknir um Frístundastyrk þurfa að berast fyrir 31. janúar ár hvert. Styrkur til hvers félags er að hámarki 350.000 kr. og getur hvert félag sótt um styrk vegna þriggja verkefna.

 

Af heildarupphæð styrks renna 7% til umsýslu og reksturs UÍF.

 

 1. gr.

Umsóknum skal skilað á þar til gerðu eyðublaði. Í umsókn skulu aðildarfélög gera grein fyrir verkefnum sem sótt er um svo og áætluðum tekjum, kostnaði og fjármögnun að öðru leyti. Aðildarfélög sem hlotið hafa styrk ber að leggja fram gögn í síðasta lagi 30.desember um útlagðan kostnað áður en til greiðslu styrks kemur. Styrkur verður greiddur út í kjölfarið eða í síðasta lagi 31.desember.

 

 1. gr.
 2. Styrkhæf eru verkefni og viðburðir (þó ekki afmæli), sem fela í sér kostnað fyrir aðildarfélag en ekki þátttakendur.
 3. Styrkhæf eru kaup á búnaði sem nýtist félagi til íþróttaæfinga og/eða mótahalds.
 4. Styrkhæf eru verkefni vegna íþróttaaðstöðu, annarra en fasteigna, sem aðildarfélög notast við.

 

 1. gr.

Frístundastyrkur tekur ekki til frítíma í íþróttahúsum, æfinga-og keppnisferða, fasteignagjalda, reksturs mannvirkja eða fastan kostnað félags.

 

 1. gr.

Fari upphæð samþykktra umsókna yfir heildarstyrkfjárhæð verður styrkur greiddur til umsækjenda í jöfnum hlutföllum. Verði allri styrkupphæðinni  ekki úthlutað rennur fjárhæðin til úthlutunar árið eftir.   Úthlutanir verða birtar á árþingi UÍF.

 

 

Samþykkt á ársþingi UÍF 4. júní 2020, sbr. samþykktar breytingar á ársþingi 3. júní 2021.

Samþykkt á ársþingi UÍF 24. maí 2022.

 

Starfsmaður UÍF; stjórn UÍF lagði til að ráðinn yrði starfsmaður til UÍF. Lagðar voru fram upplýsingar frá UMSE og UMSS um starfsmann þeirra og í hverju starfið fælist svo og hvernig starfsmaðurinn er fjármagnaður. Lagðar voru fram upplýsingar um möguleg laun og launatengd gjöld. Einnig var lagt fram reikniforrit þar sem fram kom ef að framlag UÍF í bæjarstyrk og lottó yrði hækkað til að dekka launakostnað starfsmanns. Jafnframt mætti velta fyrir sér að starfsmaðurinn væri ráðinn tímabundið til reynslu. Nokkur umræða varð um tillögu stjórnar. Formaður Skotfélagsins lýsti sig mótfallið þessu. Formaður SÓ var ekki tilbúið að rýra fjármuni til aðildarfélaga upp í launakostnað starfsmanna.  Stjórn benti jafnframt á að nýta mætti hluta af Hólspeningum í laun starfsmanns. Formaður SSS telur umræðuna um starfsmann vera brýna svo og að skilgreina nánar verkefni hans og fara í stefnumótun fyrir íþróttahreyfinguna. Að hans mati ætti starfsmaðurinn að vera á launum hjá Fjallabyggð.

Áki tók til máls og vildi benda á að aðgengi fyrir fatlaða í vallarhúsinu og á íþróttasvæðum Fjallabyggðar væri ekki ásættanlegt. Sama ætti við um námskeið fyrir börn en að hans mati þyrfti að bjóða upp á námskeið fyrir fatlaða þar sem tekið sé tillit til þeirra sérþarfa.

Óskar lagði fram þá hugmynd að ársþingið myndi heimila stjórn að vinna áfram að því að skoða hlutverk starfsmanns með því að vinna þarfagreiningu og starfslýsingu. Stjórn myndi leggja fyrir formannafund einhverjar tillögur eða ramma þannig að halda mætti áfram með vinnuna.  Allir samþykkir.

Fjármunir Hóls; ákveðið að skipa fimm manna vinnuhóp til að leggja fram tillögur um ávöxtunarmöguleika fjármagnsins. Lagt var til að í vinnuhópnum sætu Guðrún Sif, Jón Garðar, Viktor Freyr og Sandra Finnsdóttir, og oddamaður væri stjórnarmaður UÍF. Var það samþykkt samhljóða. Ársþingið veittir skipuðum vinnuhóp eftirfarandi umboð:

Ársþing UÍF veitir skipuðum vinnuhóp umboð til að leggja fram tillögur um ávöxtunarmöguleika á 58.884.000 kr.  Ávöxtunin skal vera með öruggum hætti og fela í sér lágmarks áhættu með hámarks ávöxtun.

Vinnuhópnum var falið að skila tillögum fyrir næsta ársþing.

 1. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.

Engin nefnd var að störfum nema kjörnefnd.

 1. Kosningar, álit kjörnefndar

Kosning formanns; Óskar Þórðarson bauð sig fram og komu engin mótframboð.  Var hann kosin einróma og telst rétt kjörinn formaður.

Kosning stjórnar: Eva Björk Ómarsdóttir situr sitt seinna ár í stjórn svo og Óskar. Óskar bauð sig fram til formanns og var kjörinn. Því var kosið var um þrjá aðalmenn og tvo til vara. Merkt var við allt að fimm einstaklinga á kjörseðli. Þá voru greidd atkvæði og kjörnefnd tók til starfa.

 1. Kosning stjórnar, sbr. 16. grein laga UÍF

Atkvæði í stjórn UÍF voru eftirfarandi:

Arnheiður Jónsdóttir með 22 atkvæði

Anna Þórisdóttir með 21 atkvæði

Kristján Hauksson með 20 atkvæði

Jónína Björnsdóttir með 17 atkvæði

Jón Garðar Steingrímsson 10 atkvæði

Sólveig Anna Brynjudóttir með 10 atkvæði

Jón Karl Ágústsson með 6 atkvæði

Þórarinn Hannesson með 5 atkvæði

Stefán G. Aðalsteinsson með 4 atkvæði

Sigurlaug Guðjónsdóttir með 4 atkvæði

Hilmar Símonarson með 1 atkvæði

Haukur Orri Kristjánsson með 1 atkvæði

Ásgrímur Pálmason með 0 atkvæði

 

Réttkjörnir aðalmenn eru því Arnheiður, Kristján og Anna. Jón Garðar og Sólveig Anna voru með jafnmörg atkvæði og var því varpað hlutkesti. Varamenn eru Jónína og Jón Garðar.

 1. Kosning skoðunarmanna.

Lögð er fram tillaga um Þórarinn Hannesson og Rósa Jónsdóttir og var það samþykkt samhljóða.

 1. Önnur mál

Viðar frá ÍSÍ kom í pontu og þakkaði fyrir gott þing. Hann hrósaði þingforseta fyrir þingstjórn þar sem þingið var meðvitað um að taka þátt í umræðum.  Taldi hann farsælt að stjórn myndi halda áfram að skoða kosti og galla við að ráða starfsmann því ekki víst að starfsmaður henti endilega UÍF. Gagnlegt væri að gera starfslýsingu svo hægt væri að meta hvort ráðning starfsmanns fæli í sér raunverlegan ávinning fyrir UÍF.  Benti hann á að stundum hefðu framkvæmdastjórar héraðssambanda það verkefni að útvega styrki upp í um 50% af launum þeirra.

Óskar þakkaði fyrir ánægjulegt þing og traustið sem honum var sýnd. Hann óskaði nýrri stjórn til hamingju og sleit þinginu.

Ársþingi UÍF var slitið kl. 21:30.

Þingfulltrúar:

Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar: María Jóhannsdóttir og Bjarni Árnason.

Skíðafélag Ólafsfjarðar:  Kristján Hauksson.

Ungmennafélagið Glói:  Patrekur Þórarinsson.

Íþróttafélagið Snerpa: Þórey Guðjónsdóttir og Margrét Einarsdóttir.

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg:  Jón Garðar Steingrímsson.

Golfklúbbur Fjallabyggðar:  Rósa Jónsdóttir, Sigurbjörn Þorgeirsson og Anna Þórisdóttir.

KF: Jón Árni Sigurðsson, Hákon Hilmarsson, Sólveig Anna Brynjudóttir og Örn Elí Gunnlaugsson.

Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Hreinsson

Hestamannafélagið Glæsir: Haukur Orri Kristjánsson.

Blakfélag Fjallabyggðar: Guðný Helga Kristjánsdóttir og Guðrún Sif Guðbrandsdóttir.

Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar: Hilmar Símonarson.

Skotfélag Ólafsfjarðar: Rögnvaldur Jónsson og Sverrir Júlíusson.

Golfklúbbur Siglufjarðar: Jóhann Már Sigurbjörnsson og Stefán G. Aðalsteinsson.

Stjórn ÚÍF: Jónína Björnsdóttir, Óskar Þórðarson, Arnheiður Jónsdóttir, Anna Þórisdóttir og Eva Björk Ómarsdóttir.

Gestir: Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ og Haukur Valtýsson UMFÍ auk Ríkeyjar Sigurbjörnsdóttur deildarstjóra fræðslu-og frístundamála í Fjallabyggð.

Fundarritari fær heimild fundarins til að ganga frá fundargerð.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir (sign.)

UIF notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

 • wordpress_test_cookie
 • wordpress_logged_in_
 • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á holl.tonaflod.is

• CookieConsent


Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur