Formannafundur 23.október 2025

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 23.  október 2025, kl. 18:00, í Vallarhúsinu, Ólafsfirði.

Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, formaður, Arnheiður Jónsdóttir varaformaður, Anna Þórisdóttir ritari, Guðrún Sif Guðbrandsdóttur gjaldkerfi og Þórarinn Hannesson og Elsa Guðrún Jónsdóttir varamenn í stjórn. Forföll boðaði Sandra Finnsdóttir meðstjórnandi. Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.

Frá aðildarfélögum UÍF mættu;

GFB; Rósa Jónsdóttir,

SSS; Ingibjörg Jónsdóttir og Þorgeir Bjarnason.

SÓ; Kristján Hauksson

BF; Sigurlaug Guðjónsdóttir

TBS; Eygló Óttarsdóttir og Hulda Teitsdóttir

Snerpa; Helga Hermannsdóttir, Margrét Einarsdóttir,

VÓ; Ronja Helgadóttir og Benedikt Hallgrímsson

Glói; Þórarinn Hannesson

Gnýfari; Þorvaldur Hreinsson

Pílufélag Fjallabyggðar; Ingimundur Loftsson.

Gestir:  Viðar Sigurjónsson sérfræðingur hjá ÍSÍ.

 

Fundargerð

Dagskrá;

  1. Óskar bauð fundarmenn velkomna og bauð þeim að þiggja veitingar. Fór hann yfir dagskráliði fundarins.
  2. Landsmót 50+; mótið tókst afskaplega vel og fór Óskar yfir hver tekjuafgangur var og hvernig þeir fjármunir deildust niður á aðildarfélögin. Tekjuafgangur var 5.749.183 kr., tímafjöldi sjálfboðaliða var alls 1.116 klukkustundir og tímagjald því 5.152 kr. Skiptist það með neðangreindum hætti:

Snerpa 185 tímar Boccia 953.120 kr.

BF 130 tímar Ringó og Pokavarp 669.760 kr.

KF 29 tímar Brennó 149.408 kr .

TBS 75 tímar Badminton 386.400 kr.

Bridds 22 timar 113.344 kr .

SSS 170 tímar sund 875.840 kr.

GFB 211 tímar golf og pútt , 1.087.072 kr.

Skotfélagið 51 tímar Skotfimi 262.752 kr.

Pílufélag Fjallabyggðar 47 tímar 242.144 kr.

SÓ 73 tímar undirbúningur og vinna við frjálsar 376.096 kr.

VÓ 10 tímar undirbúningur frjálsar 51.520 kr.

Glói 95 tímar Frjálsar 489.440 kr.

Hestamannafélagið Gnýfari 9 tímar 46.368 kr.

Hestamannafélagið Glæsir 9 tímar 46.368 kr.

 

  1. Viðurkenning ÍSÍ til UÍF sem Fyrirmyndarhéraðssamband; handbók UÍF var skilað til ÍSÍ fyrr í vor og var kláruð fyrir nokkru síðan með aðstoð svæðisskrifstofu Norðurlands. Viðar Sigurjónsson sérfræðingur hjá ÍSÍ kom og afhenti formanni UÍF viðurkenninguna. Hann færði okkur einnig kveðjur formanns ÍSÍ og framkvæmdastjórnar. Handbókin innhildur mikilvægar upplýsingar og gögn sem ramma inn starf UÍF og auðveldar þeim sem koma nýir inn í stjórn að átta sig á hlutverki UÍF og aðildarfélaga. Viðurkenningin er líka staðfesting á því að UÍF mun gera sitt besta til að hvetja aðildarfélög til að gerast fyrirmyndarfélög og er Viðar tilbúinn til að aðstoða félögin við það. Viðar hrósaði UÍF fyrir að fá viðurkenninguna því það er valfrjálst að sækjast eftir henni.
  2. Sambandsþing UMFÍ; var haldið í Stykkishólmi dagana 10. til 12. október 2025. Þórarinn fór á þingið og sagði frá dagskrá þess. Fyrir þinginu lágu 27 tillögur, þ.á.m. tillögur sem UÍF tók þátt í og vörðuðu úthlutun á lottó tekjum. Sagði hann frá því að auknar kröfur hafa verið lagðar á íþróttahreyfinguna m.a. frá Skattinum, en þær hafi aðallega lagst á stærri félög, svo og hafi verið gerðar auknar kröfur um persónulegar ábyrgðar stjórnarfólks. Á þinginu var samþykkt tillaga um samvinnu ÍSÍ og UMFÍ þar sem skilgreint yrði hlutverk og skyldur hvorrar hreyfingar um sig. Einnig lá fyrir þinginu tillaga um sölu áfengis á íþróttaviðburðum og var niðurstaðan sú að þetta yrði rætt milli UMFÍ og ÍSÍ. Mikið var einnig rætt um svæðisskrifstofurnar en ánægja er með þær úti á landi en ágreiningur er um þær á höfuðborgarsvæðinu. Svæðisfulltrúar vinna einnig fyrir hið opinbera á grundvelli farsældarlaga. Hvatasjóðurinn heyrir einnig undir svæðisskrifstofurnar. Lottótekjur voru einnig mikið ræddar á þinginu svo og breytingar á úthlutun þeirra. Við þá breytingu hafi minni íþróttahéruð tapað allt að 90% af sínum tekjum. UÍF er að tapa um 70% af sínum tekjum. Tillaga lá fyrir þinginu um að 20% af lottó tekjum yrði skipt jafnt á öll héraðssambönd. Tillagan náði ekki í gegn en umræður voru mjög góðar. Lögð var fram miðlunartillaga um að stjórn UMFÍ fengi leyfi til að deila út því fjármagni sem afgangs er af lottó til þeirra héraða sem orðið hefðu fyrir mestu tekjuskerðingunni. Tillagan féll því miður á jöfnu. Tillaga var þó samþykkt um að fjármagn yrði tekið úr fræðslusjóði UMFÍ og úr sjóðum UMFÍ til að koma til móts við þau héruð sem orðið hefðu fyrir mestu tekjutapi. Forseti ÍSÍ var einnig á þinginu og var það talið gagnlegt þegar mögulega þarf að taka slaginn á vettvangi ÍSÍ.

Kristján kvað sér hljóðs og ræddi og fór yfir þær breytingar sem orðið hafa á reglum um úthlutun lottó. Hann kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með að gengið væri í sjóði UMFÍ til að jafna hlut þeirra héraða sem urðu fyrir mestri skerðingu og þá skerðingu sem yrði þar með á sjóðum UMFÍ.  Kristján vill halda áfram að vinna í því að leiðrétta skerðingu á úthlutun lottó með því að breyta reglunum og halda umræðunni áfram. Mikið sé í húfi.  Fundarmenn tóku allir undir það.

  1. Val á íþróttamanni Fjallabyggðar; Óskað var eftir að aðildarfélögin myndu leggja fram tillögur að breytingum á reglum um val á íþróttamanni Fjallabyggðar. Engar tillögur bárust frá aðildarfélögum. Óskar fór yfir nokkur atriði sem hann telur persónulega að huga mætti að við breytingar á reglunum. Nokkur umræða var á fundinum m.a. um hvort að aldursflokkarnir gætu skarast, lögheimili, tími viðburðar svo og hvort skilja ætti að alpagreinar og göngu.
  2. Svæðisskrifstofur; Óskar fór yfir starf héraðsskrifstofunnar og hvernig samstarf héraðssambanda við skrifstofuna hefur verið. Benti hann á að ef fleiri héruð vilji hefja vinnu við að gerast fyrirmyndarhéraðssamband þá sé skrifstofan tilbúinn til að aðstoða við það. Einnig hefur skrifstofan skipulagt og fjármagnað viðburði eða íþróttaveislu fyrir héraðssamböndin. UÍF þarf að finna dagsetningu til að halda slíka íþróttaveislu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 19:41.

Formannafundur 12.febrúar 2025

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 12. febrúar 2025, kl. 18:00, á Síldarkaffi, Siglufirði.

Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, formaður, Kristján Hauksson meðstjórnandi og Arnheiður Jónsdóttir varaformaður, auk Söndru Finnsdóttur og Guðrúni Sif Guðbrandsdóttur varamönnum í stjórn. Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.

Frá aðildarfélögum UÍF mættu;

Hestamannafélagið Glæsir: Haraldur Marteinsson og Magnús Jónasson

Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir, Dagný Finnsdóttir, Ármann Sigurðsson og Sigurbjörn Þorgeirsson

Golfklúbbur Siglufjarðar; Halldór Þ. Halldórsson

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar: Örn Elí Gunnlaugsson.

SSS; Anna María Björnsdóttir.

BF; Sigurlaug Guðjónsdóttir, Ása Guðrún Sverrisdóttir, Brynhildur Ólafsdóttir, Valgerður Þorsteinsd.

TBS: Eygló Óttarsdóttir

Skotfélag Ólafsfjarðar; Jón Valgeir og Sverrir Júlíusson

Snerpa: Ólína Þórey Guðjónsdóttir, Helga Hermannsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Agnes og Berglind

Vélsleðafélag Ólafsfjarðar: Ronja Helgadóttir, Vala Karen, Kristinn, Allý

Skíðafélag Ólafsfjarðar: Heimir Sverrisson

Glói: Þórarinn Hannesson og Telma Björk Birkisdóttir

Gnýfari; Þorvaldur Hreinsson

Pílufélag Fjallabyggðar; Ingimundur og Jóhann Þór.

 

Gestir voru:

Sara Sigurbjörnsdóttir, Júlíus Þorvaldsson og Guðný Helgadóttir

Ómar Bragi Stefánsson framkvæmdastjóri UMFÍ Landsmóts 50+

 

Frá Fjallabyggð mættu Þórir Hákonarson bæjarstjóri og Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri.

 

Þorgeir Bjarnason frá H-lista.

 

 

Fundargerð

Dagskrá;

  1. Óskar bauð fundarmenn velkomna og bauð þeim að þiggja veitingar. Fór hann yfir dagskráliði fundarins.
  2. Landsmót 50+; Ómar kynnti framkvæmd mótsins en mótshaldari er UÍF. Mótið er opið öllum 50 ára og eldri óháð því hvort að viðkomandi sé í íþróttafélagi eða ekki. Keppnisgreinar eru 15 talsins. Gleði er rauði þráðurinn í mótinu. Fullt af viðburðum eru einnig í boði og eru þeir opnir öllum svo og opnar greinar. Þátttökugjald er 5.500 kr. og veitir keppnisrétt í öllum greinum. Skráning hefst 2. júní nk. UMFÍ heldur utan um skráninguna. Allur hagnaður verður eftir heima. Framkvæmdanefnd þarf að fara í fjáröflun og hefur tíma til byrjun mars til að gera það, eftir þann tíma fer fjáröflunin annað. Mótsvæðin eru bæði á Siglufirði og Ólafsfirði, annar dagurinn á Siglufirði og hinn á Ólafsfirði. Ómar fór nánar yfir keppnisgreinarnar og viðburðina.
  3. Undirritun samnings vegna Landsmóts 50+: Samstarfssamningur milli UÍF, UMFÍ og Fjallabyggðar um mótið var undirritaður af Ómari, Þóri og Óskari.
  4. Úthlutun Lottó; Óskar sagði frá því að í ljósi breytinga á reglum um úthlutun lottó til UÍF og þar með skerðingar til aðildarfélaganna hafi stjórn UÍF ákveðið að ráðstafa hlutdeild UÍF í lottó til aðildarfélaga.
  5. Val á íþróttamanni Fjallabyggðar; Óskar sagði frá að til stæði að funda með Kiwanis þar sem útfærsla og framkvæmdin viðburðarins yrði rædd. Óskaði hann eftir að aðildarfélögin myndu leggja fram tillögur að breytingum á reglum um val á íþróttamanni Fjallabyggðar, t.a.m. um val á fulltrúum í nefnd um valið. Kiwanis er með ákveðnar hugmyndir að breytingum á reglunum m.a. til að stækka viðburðinn. Kristján hefur verið í nefndinni undanfarin og tvö ár og sagði hann frá því sem hann teldi að mætti skoða nánar.
  6. Aðalfundir aðildarfélaga; óskað var eftir að UÍF yrði sent fundarboð á aðalfundi félaganna þar sem stjórnarmenn myndu reyna að mæta á fundina.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 19:15.

Formannafundur 9.október 2024

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 9. október  2024, kl. 18:00, í Vallarhúsinu Ólafsfirði.

Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, formaður, Sandra Finnsdóttir varamaður í stjórn og Guðrún Sif Guðbrandsdóttir varamaður í stjórn. Forföll boðuðu Arnheiður, Anna og Kristján.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.

Frá aðildarfélögum UÍF mættu;

Hestamannafélagið Gnýfari:  Þorvaldur Hreinsson

Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir

SSS; Gurrý Anna Ingvarsdóttir

BF; Sigurlaug Guðjónsdóttir

TBS: Eygló Óttarsdóttir

Snerpa: Ólína Þórey Guðjónsdóttir

Golfklúbbur Siglufjarðar: Linda Lea Bogadóttir

Skotfélag Ólafsfjarðar: Rögnvaldur Jónsson og Smári Sigurðsson

Glói; Þórarinn Hannesson

Vélsleðaklúbbur Ólafsfjarðar; Ronja Helgadóttir og Svanborg Anna.

SÓ; Heimir Sverrisson

Hestamannafélagið Glæsir; Haraldur Marteinsson

 

Frá Fjallabyggðu mætti Linda Lea Bogadóttir og Ríkey Sigurbjörnsdóttir og frá svæðisskrifstofu Norðurlands mættu Hansína Þóra Gunnarsdóttir og Þóra Pétursdóttir.

 

 

Fundargerð

Dagskrá;

  1. Óskar bauð fundarmenn velkomna og bauð þeim að þiggja veitingar. Fór hann yfir dagskrá fundarins.
  2. Kynning Fjallabyggðar á nýjum vef fyrir frístundir, menningu og afþreyingu; Linda Lea menningarfulltrúi Fjallabyggðar fór yfir vefinn „Fjör í Fjallabyggð“ en þar má finna á einum stað öll hreyfiúrræði í sveitarfélaginu. Fyrirmynd vefsins er „skagalíf“ á Akranesi. Hægt verður að leita eftir námskeiðum eftir aldri eða staðsetningu. Ef íþróttafélag vill kynna viðburð eru upplýsingar um hann annað hvort sendar til Lindu Leu eða að félagið setur upplýsingar um viðburðinn beint inn á vefinn. Ef félag er með námskeið þá eru þau sett inn á vefinn sem viðburður eða hafa samband við Lindu Leu sem getur þá sett það inn. Einnig geta félögin sett inn æfingatöflur fyrir reglulegar æfingar.
  3. Skýrsla um stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð: Ríkey fór yfir forgangsröðun uppbyggingar sem talin er upp í skýrslunni í átta liðum og hvernig staðan er á þeim framkvæmdum er. Bæjarstjórn hefur samþykkt að setja keppnisaðstöðu fyrir knattspyrnu í forhönnun. Viðbygging og endurbygging íþróttamiðstöð Fjallabyggðar á Siglufirði hefur ekki gengið eftir en aðeins þokast í viðhaldi. Þar eru stór verkefni framundan og verður fenginn utanaðkomandi úttektaraðili til að leggja fyrir bæjarráð kostnaðar og aðgerðaráætlun. Uppbygging golfskala á Skeggjabrekkuvelli hefur ekki hafist en fjármagn var sett í lagfæringu á gámasamstæðu. Endurnýjun brauta á golfvellinum verður flýtt. Í Skarðsdal er búið að hefja færslur á lyftum og gámasamstæður keyptar fyrir aðstöðuhús til bráðabirgða. Vinna við að bæta aðstöðu til gönguskíðaiðkunar í Bárubraut er ekki hafinn né vinna við að tryggja golfskálaaðstöðu á Siglufirði. Sótt verður í uppbyggingasjóð um styrk til að byggja upp aðstöðu fyrir brimbrettafólk við Brimnes á Ólafsfirði. Aukinn frístundaakstur hefur nú þegar tekið gildi og búið að bæta við einni ferð 4x í viku. Samningaviðræður við Glæsi um uppbyggingu aðstöðu og lúkning gamalla mála er í vinnslu. Tækjakostur á knattspyrnusvæði er í endurskoðun m.t.t. fjárhagsáætlunar en gera þarf stórátak þar.
  4. Svæðaskrifstofur íþróttahreyfingarinnar: starfsmenn skrifstofunnar á Norðurlandi eystra þær Hansína og Þóra sögðu frá því í hverju starfið fælist. Skrifstofan er í Skipagötu á Akureyri. Þær hafa hitt héraðssamböndin og sveitarfélögin og hafa í hyggju að hitta líka félögin. Þær eru enn þá í greiningarvinnu sem miðar að því að starfskraftar þeirra nýtist hreyfingunni sem best. Áhersluflokkar eru börn með fatlanir, börn af erlendum uppbruna og börn af efnaminni heimilum. Þær óska eftir samvinnu við íþróttafélög og héraðssambönd.
  5. Landsmót 50+: verður haldið í Fjallabyggð árið 2025 í báðum byggðarkjörnum en ekki á sama tíma. Fyrirhugað er að halda opinn undirbúningsfund með aðildarfélögum, sveitarfélaginu, íbúum og hagsmunaaðilum, þann 23. október nk. Ríkey benti á „heilsueflandi samfélag“ ætlar að sækja um styrk í Lýðheilsusjóð og óskar eftir að styrkurinn nýttist í samstarfi við UÍF vegna Landsmóts 50+.
  6. Vetrarleikar UÍF; aðildarfélögin eru hvött til að vera með opna viðburði og UÍF styrkir hvert félag um 50.000 kr. Ákveðið að vera með leikana í febrúar 2025.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 19:15.

Formannafundur 6.mars 2024

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 6. mars 2024, kl. 18:00, í Vallarhúsinu Ólafsfirði.

Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, formaður, Kristján Hauksson meðstjórnandi, Anna Þórisdóttir ritari, Arnheiður Jónsdóttir varaformaður og Sigurlaug Guðjónsdóttir varamaður í stjórn.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.

Frá aðildarfélögum UÍF mættu;

Hestamannafélagið Gnýfari:  Þorvaldur Hreinsson

Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir og Sturla Sigmundsson

SSS; Sandra Finnsdóttir og Gurrý Anna Ingvarsdóttir

BF; Valgerður Guðjónsdóttir

TBS: Eygló Óttarsdóttir

Snerpa: Ólína Þórey Guðjónsdóttir og Helga Hermannsdóttir

Golfklúbbur Siglufjarðar: Linda Lea Bogadóttir

 

Frá Fjallabyggðu mættu Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri og Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri, svo og bæjarfulltrúarnir Sigríður Guðrún Hauksdóttir, Guðjón Marínó Ólafsson, Tómas Einarsson, Þorgeir Bjarnason og Helgi Jóhannsson.

 

 

Fundargerð

Dagskrá;

  1. Brynja bauð fundarmenn velkomna og bauð þeim að þiggja veitingar. Fór hún yfir dagskráliði fundarins.
  2. Verkefnið „Allir með, farsælt samfélag fyrir alla, brúum bilið“; Valdimar Gunnarsson starfsmaður íþróttahreyfingarinnar kynnti verkefnið sem gengur út á að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn í íþróttum. Verkefnið snýst um að breyta viðhorfum og venjum og finna lausnir. Hvernig er hægt að bjóða fötluðum nemendum að vera með í íþróttastarfi. Verkefnið er styrkt af þremur ráðuneytum og á að tryggja fötluðum sama aðgengi að íþróttum og ófatlaðir hafa. Öll börn eigi möguleika á að taka þátt í íþróttum í sínu nærumhverfi. Innan íþróttahreyfingarinnar eru aðeins um 4-5% fatlaðir iðkendur. Flestir eru 17 ára og eldri og æfa með sérfélögum fatlaðra. Foreldrar fatlaðra barna upplifa að íþróttahreyfingin vilji ekki börnin þeirra. Félögin hafa borið því við að þau kunni ekki að þjálfa fatlaða og vilja vita hver eigi að borga, það þurfi fleiri þjálfara og aðstoðarfólk. Stofnaður hefur verið Hvatasjóður þar sem félög geta fengið styrk og hafa 10 verkefni hlotið styrk nú þegar. Heimasíðan er allirmed.com og þar er umsóknareyðublað fyrir umsóknir í Hvatasjóð. Mikilvægt að fatlaðir fái að taka þátt í gegnum hefðbundin íþróttafélög því það er jafn mikilvægt fyrir þau að tilheyra, og eiga vini í sama félagi. Því þarf að finna leiðir en það getur verið þolinmæðisvinna. Á Special Olympics má sjá hversu mikið framboð er á íþróttagreinum fyrir fatlaða. Íslandsleikar verða haldnir á Akureyri 16. til 17. mars í fótbolta og körfubolta fyrir fatlaða og ófatlaða.
  3. Frístund í grunnskólanum; Sigríður Guðrún Hauksdóttir bæjarfulltrúi og Ríkey Sigurbjörnsdóttir fóru yfir Frístund sem er fyrir nemendur í 1-4. bekk frá kl. 13:35 til 14:35, valmöguleikana sem eru í boði og þróunina sem verið hefur en aðildarfélög hafa að þeirra mati verið að draga sig út úr Frístund. Í upphafi var lagt upp með að þetta væri fyrir alla og þá er meiri pressa að finna einnig valmöguleika fyrir þá sem eru ekki í íþróttum en framboð íþróttafélaganna á æfingum hefur minnkað. Samstarfið milli íþróttahreyfingarinnar og sveitarfélagsins hefur gengið vel og er vel farsælt. Ríkey fór yfir stærð árganga í skólanum, þeir hafa stækkað og fleiri börn taka þátt í Frístund. Einnig fór hún yfir frístund 1-4. bekkjar á vorönn og hvað er í boði. Vildu gjarnan bjóða upp á fleiri íþróttatengda valmöguleika en á hverjum degi er jafnvel bara ein íþróttagrein og allir aðrir valmöguleikar eru á vegum sveitarfélagsins. 5. bekkur er í skólastarfi inn í skólahúsinu á meðan Frístund stendur yfir og veldur það vandamálum við að útvega starfsfólk til að sjá um Frístund. Lengd viðvera tekur síðan við af frístund en þar eru 35 börn skráð. Óskar tók einnig til máls og var hann ekki sammála því að íþróttafélögin væru að draga úr framboði heldur væri vandinn að koma þyrfti 5. bekk út úr skólahúsinu en hann er með lengri stundatöflu. Við það myndi rýmka til í skólahúsinu. Benti Óskar á að einnig mætti vera með tvöfalda frístund þ.e. bæði fyrir og eftir hádegi. Ríkey velti líka fyrir sér hvort að fækka ætti valmöguleikum þannig að börnin myndu frekar velja að fara á íþróttaæfingar. Annar valmöguleiki væri lengd viðvera sem foreldrar greiða fyrir. Ákveðið að stjórn UÍF myndi halda áfram samtali við sveitarfélagið um Frístund.
  4. Stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð: Tómas Einarsson og Guðjón Marínó fóru yfir skýrsluna sem gefin var út í kjölfar vinnunnar. Þetta verkefni var hluti af málefnasamning meirihlutans í Fjallabyggð. Hlutverk sveitarfélagsins er að styrkja íþróttastarf og tryggja aðgang að mannvirkjum. Aðferðafræðin við vinnuna var að kalla íþróttahreyfinguna til samstarfs, þetta snýst ekki bara um íþróttahreyfinguna heldu einnig innviðina. Framtíðarsýnin er metnaðarfull uppbygging fjölbreytts íþróttastarfs. Það gleymdist mögulega að taka tillit til þarfa allra en það var rætt. Guðjón fór yfir markmiðin, hvernig þeim verði náð og tímasetningu á því. Aðgengi að íþróttum fela í sér samgöngur en það verði að finna leið til að bæta þær. Einnig þurfi að ræða með jákvæðum hætti sameiningu íþróttafélaga jafnvel að aðeins verði starfandi eitt félag með eitt nafn, sama búning en mismunandi rekstrardeildir. Skýr forgagnsröðun með uppbyggingu íþróttamannvirkja og er byrjað nú þegar að vinna eftir áætluninni. Styrkjakerfi íþróttamála með tillit til þess hvernig hægt væri að hvetja til sameiningu íþróttafélaganna. Sveitarfélagið er tilbúið í það samtal við íþróttafélögin. Forgangsröðun uppbyggingar er síðan talinn upp í skýrslunni í sjö liðum og var farið yfir hvern lið fyrir sig. Rekstrarfyrirkomulag íþróttasvæða er mismunandi hjá sveitarfélaginu.  Nokkur umræða var um sameiningu félaga og að vera með aðeins eitt íþróttafélag í Fjallabyggð sem væri deildarskipt. Samgöngumál voru einnig rædd.
  5. Svæðaskrifstofur íþróttahreyfingarinnar: Óskar sýndi glærur um skipulag og verkefni skrifstofanna. Fór hann hratt yfir stöðu mála og sagði frá þeim héruðum sem UÍF vinnur með. Á hverri svæðisskrifstofu eiga að vera tveir starfsmenn og geta þeir starfsmenn verið hvar sem er innan svæðis. Lottó tekjur munu skerðast en á móti koma starfsmenn sem geta aðstoðað íþróttafélögin við t.d. að sækja um styrki.
  6. Landsmót 50+: verður haldið í Fjallabyggð árið 2025 í báðum byggðarkjörnum en ekki á sama tíma. Þá geta allir tekið þátt í fleiri en einni grein. Allt fjármagn sem verður til á mótinu verður eftir á svæðinu. Boðið verður upp á opnar greinar þar sem allir undir 50 ára aldri geta tekið þátt. Stjórnin vonast til að öll aðildarfélög komi að mótinu.
  7. Vetrarleikar UÍF; aðildarfélögin eru hvött til að vera með opna viðburði og UÍF styrkir hvert félag um 50.000 kr. Ákveðið að vera með leikana 6. til 14. apríl nk.
  8. Fundir stjórnar UÍF með stjórnum aðildarfélaga: stjórn UÍF býður aðildarfélögum að koma til fundar þann 12. mars á Siglufirði og 13. mars á Ólafsfirði. Á fundunum geta aðildarfélögin rætt um það sem brennur helst á þeim og stjórn UÍF mun fara yfir lög og reglur UÍF, skýrsluskil o.fl.
  9. Skýrsluskil til UÍF og ÍSÍ: Frestur til skýrsluskila til UÍF er 31. maí en til ÍSÍ að öllum líkindum þann 15. apríl nk.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 20:15.

Formannafundur 9.nóvember 2023

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 9. nóvember 2023, kl. 18:00, í Vallarhúsinu Ólafsfirði.

Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, formaður, Anna Þórisdóttir meðstjórnandi, Eva Björk Ómarsdóttir gjaldkeri, Kristján Hauksson meðstjórnandi og Arnheiður Jónsdóttir varaformaður, auk Sigurlaugar Guðjónsdóttur varamanns í stjórn. Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.

Frá aðildarfélögum UÍF mættu;

Hestamannafélagið Glæsir: Símon Helgason

Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar: Örn Elí Gunnlaugsson

SSS; Anna Lind Björnsdóttir og Sandra Finnsdóttir

TBS: Eygló Óttarsdóttir

Skotfélag Ólafsfjarðar; Rögnvaldur Jónsson

Hestamannafélagið Gnýfari; Þorvaldur Hreinsson

Glói; Þórarinn Hannesson

 

Fundargerð

Dagskrá;

  1. Óskar bauð fundarmenn velkomna og bauð þeim að þiggja veitingar. Fór hann yfir dagskráliði fundarins.
  2. Hátindur 60+: Hanna Sigríður verkefnastjóri sagði frá verkefninu sem er samstarfsverkefni HSN, Fjallabyggðar og Veltek. Er nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir eldra fólk í Fjallabyggð og samþætting félagsþjónustu og heimahjúkrunar. Námskeið hafa verið haldin fyrir aldurinn 50+ og óskar hún eftir samstarfi við aðildarfélögin um námskeið fyrir þennan aldurshóp. Það er mikilvægt að virkja fólk fyrr með tilliti til heilsueflingar og geðræktar. Mikilvægt er að bjóða upp á fjölbreytt framboð. Jóga og Zumba hefur verið í boði og verið vinsælt. Íþróttahreyfingin ætti að koma að borðinu, þarf ekki að vera flókið, gætu verið útitímar t.d. gönguferðir, stafaganga, sund og innanhússæfingar fyrir þennan aldurshóp. Hátindur myndi koma að námskeiðum með aðildarfélögum en þau myndu skipuleggja hvað yrði í boði. Viðburðir og námskeið eru til þess fallnir að tryggja félagslega þáttinn hjá þessum aldurshóp og koma í veg fyrir einsemd. Halda þarf utan um skráningu og oft þarf bara einn einstakling til að laða að fleiri. Netfang Hönnu Sigríðar er hannasigga@hatindur.is og hún áréttar að þetta mun taka einhvern tíma, þetta sé langhlaup.
  3. Umsókn UÍF um Landsmót 50+: Óskar sagði frá því að UÍF hefði sótt um að halda mótið árið 2025. Búið sé að skila inn umsókn til UMFÍ og sveitarfélagið hefur lýst yfir stuðningi. Formenn fögnuðu því að sótt hefði verið um og eru tilbúnir til að taka þátt.
  4. Vetrarleikar; Óskar sagði frá því að stjórn hefði hug á að endurvekja leikana og styrkja félögin til að vera með viðburði. Leikarnir hafa verið í febrúar og geta aðildarfélög þá boðið upp á viðburði óháð þeirri íþróttagrein sem iðkuð er. Gert er ráð fyrir að leikarnir standi yfir tvær helgar og vikuna á milli, alls 9 daga.
  5. Samráðshópur um stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð: Óskar sagði frá vinnu hópsins og hvar hún stæði. Á síðasta fundi hafi verið sett upp gróft skipulag en nokkuð sé þó um liðið frá síðasta fundi. Vinnan hefur að mati Óskars verið árangursrík og fór hann yfir verkefnin og tímaáætlun þeirra auk forgangsröðunar. Forgangur númer eitt er knattspyrnuaðstaða á Ólafsfirði. Nokkrar umræður urðu í kjölfarið og voru samgöngur m.a. ræddar en skipulag þeirra er ekki inn í þessari vinnu. Var t.a.m. talið að stjórn UÍF mætti beita sér fyrir samgöngubótum.
  6. Íþróttahéruð og starfsstöðvar á landsvísu: Bæði ÍSÍ og UMFÍ hafa samþykkt að efla íþróttahéruð með því að koma á fót sameiginlegum starfsstöðvum sem hafa það hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Um er að ræða 8 starfssvæði með tveimur starfsmönnum hver. Til að fjármagna starfssvæðin hefur verið samþykkt að breyta lottóreglum UMFÍ og ÍSÍ þannig að 15% hlutur renni til starfsstöðvanna. Ríkið hefur lofað að leggja starfsstöðvunum til 200 m.kr. sem er ígildi eins starfsmanns á hvert svæði. Nokkur umræða var um þá útreikninga koma fram hjá UMFÍ og mun verða óskað eftir frekari skýringum hjá  ÍSÍ og UMFÍ.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 19:33.

Formannafundur 1.febrúar 2023

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 1. febrúar 2023, kl. 17:30, í Vallarhúsinu
Ólafsfirði.
Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, formaður, Anna Þórisdóttir meðstjórnandi, Eva Björk
Ómarsdóttir gjaldkeri, Kristján Hauksson meðstjórnandi og Arnheiður Jónsdóttir varaformaður, auk
Jóns Garðars Steingrímssonar og Jónínu Björnsdóttur varamanna í stjórn. Brynja Ingunn
Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.
Frá aðildarfélögum UÍF mættu;
Hestamannafélagið Glæsir: Símon Helgason og Elín Kjartansdóttir
Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar: Örn Elí og Hákon Hilmarsson
SSS; Ásta Lovísa Pálsdóttir
BF; Sigurlaug Guðjónsdóttir og Ása Guðrún Sverrisdóttir
GKS; Ása Guðrún Sverrisdóttir
TBS: Sigurlaug Ragna Guðnadóttir
Skotfélag Ólafsjarðar; Rögnvaldur Jónsson

Fundargerð

Dagskrá;
1. Óskar bauð fundarmenn velkomna og bauð þeim að þiggja veitingar. Fór hann yfir dagskráliði
fundarins.
2. Nýtt aðildarfélag; Vélsleðafélag Ólafsfjarðar óskaði eftir að gerast aðildarfélag að nýju og var
tilkynning þar að lútandi stend ÍSÍ og UMFÍ. Formaður þess er Ásgeir Frímannsson. Félagið
var áður aðildarfélag UÍF og hefur nú verið endurvakið sem er ánægjulegt.
3. Heimasíða UÍF; Óskar sagðir frá því að heimasíðan væri komin til UÍF. Síðan er þó enn lokuð
en aðgangur kominn til UÍF. Kristján mun skoða myndir og bæta við. Þar verður sett inn
eyðublað með upplýstu samþykki sem samþykkt var að útbúa fyrir aðildarfélögin.
4. Fyrirmyndarhéraðssamband ÍSÍ; vegna anna stjórnar hefur vinnu miðað hægt en það verður
bætt úr því. Stefnt verður að því að ljúka drögum að handbókinni fyrir ársþing.
5. Hólsnefnd; nefndinni var falið að skila af sér tillögum um ráðstöfun söluandvirðis Hóls og
verða þær lagðar fyrir næsta ársþing. Formlegur fundur hefur ekki verið haldinn í nefndinni en
vinnan er hafin og hafa verið gerð drög að vinnuskjali. Andvirði sölu Hóls hefur verið fest í
ákveðinn tíma inn á bankareikningi. Óskar fór yfir vinnuskjalið.
6. Lottó; verður greitt úr í febrúar en verið er að taka saman upphæðina. Upphæðin virðist vera
svipuð og á síðasta ári.
7. Á síðasta formannafundi fór Óskar yfir punkta sem hann tók saman um aðbúnað og ástand á
íþróttamannvirkjum Fjallabyggðar. Hann sendi fyrirspurn til bæjarins þar að lútandi og kemur
svar bæjarins fram í fundargerð 776. fundar bæjarráðs þann 24. janúar 2023. Þar er rakið
hvaða fjárhæðum bærinn hefur varið til íþróttamála og mannvirkja. Nokkur umræða varð um
aðbúnað og viðhald á íþróttamannvirkjum.
8. Samráðshópur um stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð: Formaður
bæjarráðs sagði frá fyrirhuguðum samráðshópi í ræðu á vali íþróttamanns Fjallabyggðar.
Óskar fór á fund bæjarráðs þann 10. janúar 2023 og var þar farið yfir hugmyndir bæjarins sem

fyrirhugað er að nái til næstu sjö ára. Umræður voru m.a. um hvort að aðildarfélög UÍF gætu
öll keppt undir nafni UÍF. Þann 16. janúar 2023, óskaði bæjarstjóri eftir að UÍF tilnefni
fulltrúa íþróttahreyfingarinnar. Stjórn UÍF telur mjög mikilvægt að taka þátt í þessari vinnu
sveitarfélagsins og ákvað á fundi stjórnar þann 17. janúar 2023 að fulltrúar UÍF í hópnum yrðu
allt að fimm og að formaður UÍF verði í starfshópnum ásamt öðrum fulltrúum sem
endurspegla fjölbreytileika hreyfingarinnar. Lagt upp með að einstaklingarnir hefðu fjölbreytt
tengsl við íþróttafélög, annað hvort sem iðkendur eða forráðamenn iðkenda, það væru tveir
einstaklingar frá hvorum bæjarkjara og kynjahlutföll jöfn. Tillaga stjórnar er að Elsa Guðrún
Jónsdóttir, Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson, Dagný Finnsdóttir og Sigurgeir Haukur Ólafsson
sitji í þessum starfshóp. Sigurgeir Haukur Ólafsson hefur þó ekki gefið endanlegt svar.
Markmiðið er að hópurinn vinni hratt en hann á að hittast í febrúar og skila af sér í maí og
tillögum til fjárhagsáætlunar næsta haust. Óskar telur mikilvægt að þegar fyrsta stöðuskýrsla
hópsins kemur fram að hún verði kynnt á formannafundi. Einnig rætt að mikilvægt sé að
aðildarfélögin standi þétt við bakið á fulltrúum UÍF og aðstoði þá eftir föngum.

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 18:25.

Formannafundur 24.nóvember 2022

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 24. nóvember 2022, kl. 18, í
Vallarhúsinu Ólafsfirði.
Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, formaður, Anna Þórisdóttir meðstjórnandi, Eva Björk
Ómarsdóttir gjaldkeri, Kristján Hauksson meðstjórnandi og Arnheiður Jónsdóttir varaformaður.
Forföll boðaði Jón Garðar Steingrímsson varamaður í stjórn. Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði
fundargerð.
Frá aðildarfélögum UÍF mættu;
Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Jónsson
Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar: Jón Árni Sigurðsson og Hákon Hilmarsson
Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar: Hilmar Símonarson
SSS; Guðrún Sif Guðbrandsdóttir
BF; Sigurlaug Guðjónsdóttir
Snerpa; Þórey Guðjónsdóttir og Margrét Einarsdóttir
Skotfélag Ólafsfjarðar; Rögnvaldur Jónsson og Sverrir Júlíusson

Fundargerð

Dagskrá;
1. Óskar bauð fundarmenn velkomna og bauð öllum að þiggja veitingar. Fór hann yfir
dagskráliði fundarins.
2. Samræmd Viðbragðsáætlun ÍSÍ fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf: Brynja fór yfir
viðbragðsáætlunina. Tilgangur samræmdrar áætlunar er að sporna við atvikum sem geta
mögulega komið upp og leiðbeint starfsfólki, sjálfboðaliðum og fleirum til að bregðast eins og
rétt við ef til þess kemur. Enda er best fyrir alla aðila máls, ef viðbrögð eru
samræmd. Ákveðið að stjórn útbúi staðlað eyðublað þar sem forráðamenn samþykkja ferðir
barna- og unglinga með íþróttafélagi.
3. Fyrirmyndarhéraðssamband ÍSÍ; Óskar sagði frá vinnu stjórnar og sýndi hvernig drögin líta
út.
4. Heimasíða UÍF; Óskar sagðir frá því að heimasíðan væri að klárast. Verið er að bíða eftir því
að fá heimasíðuna til UÍF þannig að hægt verði að vinna með síðuna. Fundarmönnum sýnd
heimasíðan eins og hún kemur til með að líta.
5. Ávöxtun fjármagns Hóls; Óskar sagði frá vinnu vinnuhóps um ávöxtun þess fjármagns sem
fékkst fyrir Hól. Nefndin hefur ekki hist enn sem komið er en fyrir liggur að hún muni hittast
fljótlega. Tillögur hópsins verða síðan kynntar á næsta ársþingi.
6. Umsóknir um frístundastyrk; Óskar benti á að nú hefðu aðeins verið sendar greiðslukvittanir
vegna fjögurra af þrettán samþykktum umsóknum. Áréttaði hann að frestur til að senda
greiðslukvittun væri til loka desember.
7. Val á íþróttamanni Fjallabyggðar; Eva sagði að búið væri að bóka Tjarnarborg 28. desember
fyrir viðburðinn. Formenn voru hvattir til að stinga upp á einstaklingum sem heiðra mætti á
viðburðinum.
8. Önnur mál; Kristján sagði frá ársþingi SKÍ og því að verið sé að innleiða deild fyrir
skíðaskotfimi. Óskar fór yfir punkta sem hann hefur tekið saman um aðbúnað og ástand á

íþróttamannvirkjum Fjallabyggðar. Að hans mati hefur litlu fjármagni verið varið til viðhalds
og bætingu á aðstöðu frá sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.
Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 19:30.

Formannafundur 24.mars 2022

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga UÍF þann 24. mars 2022, kl. 18, í Vallarhúsinu
Ólafsfirði.
Úr stjórn UÍF mættu: Jónína Björnsdóttir, formaður, Óskar Þórðarson, varaformaður, Anna Þórisdóttir
meðstjórnandi, Eva Björk Ómarsdóttir gjaldkeri og Jón Garðar Steingrímsson varamaður í stjórn.
Forföll boðuðu Arnheiður Jónsdóttir ritari og Þórarinn Hannesson, varamaður í stjórn. Brynja Ingunn
Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.
Frá aðildarfélögum UÍF mættu;
Skotfélag Ólafsfjarðar: Sverrir Júlíusson og Rögnvaldur Jónsson.
Glói; Guðrún Linda Rafnsdóttir og Patrekur Þórarinsson
Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Hreinsson
Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir.
Golfklúbbur Siglufjarðar: Jóhann Már Sigurbjörnsson
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar: Örn Elí Gunnlaugsson og Hákon Hilmarsson
TBS: María Jóhannsdóttir
Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar: Hilmar Símonarson
Hestamannafélagið Glæsir; Haraldur Marteinsson

Fundargerð

Dagskrá;
1. Jónína bauð fundarmenn velkomna og bauð öllum að þiggja veitingar. Gaf hún Óskari orðið
og fór hann yfir dagskráliði fundarins.
2. Umsóknir um Frístundastyrk: Óskar sagði frá tilurð Frístundastyrks. Sveitarfélagið hafi áður
úthlutað þessum styrk en síðan hafi hann verið settur í hendur UÍF til útdeilingar. Settar hafi
verið reglur um útdeilingu styrksins. Nú sé þriðja árið sem úthlutun Frístundastyrks fari fram.
Styrkhæfar umsóknir nema alls fjárhæð 3.155.186 kr. og til úthlutunar eru 1.143.900 kr.
Nokkur félög hafa óskað eftir styrk að fjárhæð 350.000 kr. og bað Óskar félögin um að kanna
hvort þau færu í öll þau verkefni sem sótt hafi verið um, og ef svo sé ekki, hvort þau vilji
afturkalla umsóknir sínar. Var óskað eftir að félögin létu vita hvort að þau teldu ástæðu til að
afturkalla.
3. Reglur um Frístundastyrk; Rætt var hvort að breyta ætti reglunum á næsta ársþingi. Nokkrar
umræður varð um hvort og þá hvaða efnisreglum ætti að breyta, eða hvort að úthluta ætti
styrktar fjárhæðinni með öðrum hætti, t.d. jafnt milli félaga eða samkvæmt öðrum viðmiðum.
Lagt var til að nota úthlutunarreglur bæjarstyrks þannig að ekki yrði tekið tillit til grunnstyrks
og jafnvel að miða ekki eingöngu við barna- og unglingastarf. Formenn munu kynna þetta
fyrir stjórn hvers aðildarfélag og upplýsa stjórn UÍF um afstöðu sína. Að fengnum tillögum
aðildarfélaga getur stjórn UÍF lagt fram tillögur að breytingum á reglum sjóðsins fyrir næsta
ársþing UÍF.
4. Heimasíða UÍF; Óskað hefur verið eftir að félögin sendi eftirfarandi upplýsingar á word skjali:
Merki félags, upplýsingar um stjórn, sögu félags, lög félags, slóð á heimasíðu félags eða
fréttasíðu. Nokkur aðildarfélög hafa nú þegar sent upplýsingar og voru þau félög sem ekki
hafa sent upplýsingar hvött til að gera það en stefnt er að því að opna heimasíðuna á ársþingi í
maí nk.

5. Ávöxtun fjármagns Hóls; Eva gjaldkeri sagt frá því að peningarnir væru ávaxtaðir inn á
lokuðum reikningi í 6 mánuði með hæstu mögulegum vöxtum. Eftir 6 mánuði losnar
upphæðin og hægt að binda aftur.
a. Óskar ræddi áfram hugmynd um starfsmann í tilteknu starfshlutfalli og óskað eftir afstöðu
formanna. Starfsmaðurinn myndi starfa fyrir stjórn og aðildarfélögin, þ.m.t. að afla styrkja eða
tekna, til UÍF og aðildarfélaga. Starfsmaðurinn gæti líka létt á félögunum og jafnvel yrðu t.d.
lottó tekjur notaðar að einhverju leyti upp í laun starfsmannsins. Fundarmenn ræddu
launakostnað starfsmanns svo og starfshlutfall. Engin ákvörðun tekin.
b. Önnur hugmynd varðandi fjármuni Hóls er að setja á laggirnar fjárfestingafélag sem ynni í
þágu UÍF og aðildarfélaga. Hluti árlegrar ávöxtunar rynni svo í félögin, en hinn hlutinn færi í
það að stækka höfuðstólinn. Þar með er aukaleg langtíma fjármögnun inn í félögin tryggð með
lágri áhættu. Jón Garðar mun útfæra þessa hugmynd nánar og kynna á ársþingi í maí.
c. Þriðja hugmyndin er að setja upp húsnæði sem hýsir t.d. salernisaðstöðu og búnaðargeymslu
fyrir þau félög og útivistarfólk sem nýta sér Hólssvæðið. Nokkrar umræður urðu um þessa
tillögu en allir voru sammála um að einhver aðstaða verði að vera á Hóli.
Hestamannafélagið Glæsir leggur til að Hóls peningarnir verði lagðir inn í barna- og
unglingastarf aðildarfélaganna og það eflt, t.a.m. með samræmingu búninga. Horfa megi til
annarra íþróttahéraða og fá ráðleggingar hjá einhverjum með þekkingu og reynslu. Þetta
myndi lækka útgjöld heimilanna.
SSS ræddi einnig að saga Hóls tengist tilteknum félögum á Siglufirði og það verði því að hafa
í huga að einhver aðstaða verði áfram á svæðinu. Hafa þurfi í huga að ávaxta fjármunina til
framtíðar en ekki að eyða peningunum öllum strax. Fjárfestingafélag myndi vera farsæl leið til
að tryggja að peningarnar myndu ekki klárast.
Ákveðið að félögin sendi hugmyndir um Hól fyrir miðjan apríl.
6. Önnur mál; Þorvaldur óskar eftir að lotto skiptingin verði send út á félögin. Gjaldkeri félags
þurfi að hafa skiptinguna við hendina.
Lagt til að stjórn UÍF athugi hvort að nýta megi starfskrafta Ríkeyjar, deildarstjóra fræðslu-og
frístundarmála, í auknu mæli, t.d. varðandi aðstöðusköpun, svo og að skoða fyrirkomulag
íþróttamála á Selfossi og hvort að nýta megi þekkingu þaðan. Allir fundarmenn sammála um að
auka ætti Frístund og horfa til Ísafjarðar í því sambandi.
Einnig var rætt um hvort að stjórn UÍF geti komið að frekari samvinnu aðildarfélaga, t.d. aðstoðað
þau við að starfa betur saman t.d. með sameiginlegu lógói. Jafnvel að skoða hvort að sveitarfélagið
geti aðstoðað félögin í auknu samstarfi og mögulega við sameiningu. Einstaka aðildarfélög eru
með slæma reynslu af samskiptum við sveitarfélagið en önnur hafa átt góð samskipti. Mikilvægt
talið að samskipti við sveitarfélagið séu farsæl. Umræða var um að frístundanefnd hefði ekki
staðið sig sem skyldi þegar kemur að aðildarfélögum. Nefndin hefur verið meira fræðslu sinnuð en
minna íþróttasinnuð.

Umræða var einnig um íþróttamann Fjallabyggðar og áhuga sveitarfélagsins af viðburðinum. Því
miður virðist sem bæjaryfirvöld hafi lítinn áhuga á viðburðinum og telja fundarmenn að gera
mætti þá kröfu til deildarstjóra eða annarra frá sveitarfélaginu til að mæta.
Rætt var um aðgengi fatlaðra að Vallarhúsinu, en því sé verulega ábótavant. Sveitarfélagið þurfi
að bæta úr því. Aðstaða til íþróttaiðkunar mætti líka vera betri t.d. eru bæði íþróttahúsin ekki í
nægjanlega góðu ástandi. Það hefur þurft að sleppa æfingum hjá aðildarfélögum vegna leka. Langt
sé síðan að sveitarfélagið hafi farið í stóra framkvæmd á íþróttamannvirkjum. Sveitarfélagið hefur
gert margt gott en það megi bæta verulega í. Framgangur íþróttahreyfingarinnar verði að vera
vænlegur til árangurs. Það verði einnig að sýna sanngirni í garð sveitarfélagsins þegar kemur að
skiptingu fjármagns sveitarfélagsins. Sum verkefni séu hreinlega brýnni en önnur. Gera megi þá
kröfu gagnvart sveitarfélaginu að sett sé niður skilgreind framtíðarsýn í íþróttamálum.
Umræða varð líka um misháar viðurkenningar fjárhæðir, t.a.m. sé viðurkenning sveitarfélagsins til
bæjarlistamanns 350.000 kr. meðan viðurkenning íþróttamanns Fjallabyggðar sé 100.000 kr. frá
UÍF.
7. Sportabler; Óskar fór yfir forritið og sýndi hvernig það virkar. Elías frá ÍSÍ mun koma síðar
og vera með fræðslu um skýrsluskil í Sportabler.
Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 20:30.

Formannafundur 18. nóvember 2021

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga þann 18. nóvember 2021 kl. 18. Fundurinn var haldin í Vallarhúsinu, Ólafsfirði.

Úr stjórn UÍF mættu: Óskar Þórðarson, varaformaður,  Anna Þórisdóttir meðstjórnandi, Eva Björk Ómarsdóttir gjaldkeri, Arnheiður Jónsdóttir ritari og Þórarinn Hannesson, varamaður í stjórn.  Forföll boðaði Jónína Björnsdóttir formaður og Jón Garðar Steingrímsson varamaður í stjórn. Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.

Frá aðildarfélögum UÍF mættu;

Skotfélag Ólafsfjarðar: Óskar Gíslason  og Rögnvaldur Jónsson.

Skíðafélag Ólafsfjarðar: Kristján Hauksson

Glói; Telma Björk Birkisdóttir

Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Hreinsson

Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir.

Snerpa; Helga Hermannsdóttir og Jón Hrólfur Baldursson.

Golfklúbbur Siglufjarðar: Jóhann Már Sigurbjörnsson og Jón Karl Ágústsson.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar: Örn Elí Gunnlaugsson

TBS: María Jóhannsdóttir

 

 

Fundargerð

Dagskrá;

  1. Óskar Þórðarson varaformaður fór yfir starf stjórnar; Hann sagði frá að stjórn hefði ákveðið að taka þátt í verkefninu Fyrirmyndarhéraðssamban ÍSÍ. Stjórn átti fund með Viðari frá ÍSÍ og markaði það upphaf vinnunar. Vetrarleikarnir féllu niður sl. vetur og því telur stjórn mikilvægt að leikarnir verði í ár ef að aðstæður leyfa. Leikarnir hafa alltaf verið í febrúar/mars og væntingar eru til þess að öll félög sjái sér fært að bjóða upp á eitthvað.  Vetrarleikar skipa máli, bæði hvað varðar sýnileika í samfélaginu og hvað varðar hvatningu til nýrra iðkenda/foreldra. Fundarmenn tóku vel í að halda Vetrarleika. Einnig sagði Óskar frá að búið væri að skipa í nefnd um val á íþróttamanni Fjallabyggðar.  Heimasíða UÍF var einnig rædd en vinnan hafði miðast við bókunarkerfi fyrir útleigu Hóls. Núna nýtist sú vinna ekki svo skoðað verður hvort hægt verði að breyta samninginum við Tónaflóð á þá leið að sett verði upp upplýsingasíða og jafnvel einnig fréttasíða.  Mögulega er hægt að tengja saman facebook síður aðildarfélaga og heimasíðuna.  Nokkur umræða var um heimasíðuna. Fundarmenn sammála um að mikilvægt sé að á einum stað megi finna upplýsingar um stjórnir félaganna og starf UÍF, t.am. lög og reglur auk fundargerða. Auk þess gæti saga aðildarfélaganna komið fram og tenglar inn á hvert félag og tenglar inn á heimasíðu þeirra.

 

  1. Sportabler; Óskar fór yfir forritið sem fyrirhugað er að taki við af Felix. Þetta er forrit sem notað er t.a.m. af KF og SÓ. Inn í Sportabler eru allar æfingar og allir viðburðir.  Fyrirhugað er að forritið verði notað fyrir skýrsluskil til ÍSÍ. Í knattspyrnunni er kerfið tengt KSÍ.  Ekkert er komið inn í forritið um skýrsluskil enn sem komið er.

 

 

  1. Hóll; Þórarinn sagði frá því að búið væri að skrifa undir kaupsamning um söluna á Hóli. Söluverð var 60.000.000 kr. Afsal verður gefið út 1. apríl 2022. Þórarinn fór yfir yfirlýsinguna sem stjórn UÍF hefur í hyggju að gefa út í kjölfar sölunnar.  Hann áréttaði að aðeins er verið að selja fasteignin en Hólssvæðið sjálft er í eigu Fjallabyggðar.  Lóðin undir húsinu er rétt aðeins stærri en húsið.  Húsnæði var gjöf Siglufjarðarkaupstaðar til íþróttahreyfingarinna árið 1969. Fyrstu áratugina var mikið og líflegt starf að Hóli. Margir komu að starfseminni í sjálfboðavinnu og skiljanlega upplifa margir töluverða eftirsjá við að sjá Hól hverfa frá íþróttahreyfingunni. Fasteignin hentar því miður ekki lengur því starfi sem unnið er í íþróttahreyfingunni í dag.  Skíðasvæðið er komið upp í Skarðsdal og knattspyrnan er á Ólafsfirði. Golfvöllurinn er komin hinu megin á svæðið.  Sparkvöllurinn er komin niður í miðbæ og er mikið notaður. Notkun hússins er því ekki lengur mikil fyrir UÍF og aðildarfélögin. Húsnæðið þarfnast mikils viðahalds og er það bæði kostnaðarsamt og tímafrekt.  Börnum á grunnskólaaldri hefur einnig fækkað mikið.  Þrátt fyrir færri börn þá er starf aðildarfélaganna mjög blómlegt. Margar íþróttagreinar í boði fyrir börn og unglinga og félögin vel rekin. Helsta nýting fasteignarinnar í dag er útleigan. Tekjur af útleigu duga ekki fyrir nauðsynlegu viðhaldi.  Ekki tókust samningar um leigu á Hóli við Selvík enda þótt stjórn hafði tekið jákvætt í þá umleitan.  Þar sem fasteignin nýttist íþróttahreyfingunni ekki meira en raun ber vitni var að mati formannafundar og ársþings UÍF skynsamlegast að selja fasteignina.   Íþróttahreyfingin er ekki tilbúin til að reka ferðaþjónustu í samkeppni við jafnvel helstu styrktaraðila íþróttahreyfingarinnar.

 

  1. Opnar umræður og tillögur um mögulega ráðstöfun greiðslunnar fyrir Hól; Óskar stýrði umræðum.  Hann fór stuttlega yfir sameiningu UÍÓ og ÍSB og sagði frá því hvaða eignir fylgdu með við sameininguna. Einnig fór hann yfir hvernig aðildarfélögin hafi nýtt Hólssvæðið.   Nokkrar umræður urðu milli fundarmanna.  Óskar lagði fram tillögur stjórnar um nýtingu fjársins. Fyrsta lagi að koma upp húsnæði á svæðinu með aðstöðu fyrir, t.d. leikjanámskeið, skíðagöngu, Húsnæðið myndi þá einnig nýtast sem salernisaðstaða og geymsla.  Ekki hefur enn þá farið fram umræða um hvort að UÍF kæmi til með að standa eitt að þessum framkvæmdum eða hvort að sveitarfélagið kæmi að þessu líka.  Aðstaðan gæti til að byrja með verið í gámum eins og t.d. upp í Skarðsdal.  Leigusamningur hefur verið gerður tímabundið við Ljóðasetrið um geymslu og fundaraðstöðu fyrir stjórn UÍF. Í öðru lagi að ráða starfsmann í hlutastarf. Mörg héraðssambönd eru með starfmenn og gagnlegt væri að skoða hver þeirra verkefni eru. Starfsmaðurinn gæti séð um skýrsluskil aðildarfélaga, umsóknir, samskipti við sveitarfélagið, farið á fundi hjá ÍSÍ og UMFÍ ofl.  Þórarinn bætti við að einnig mætti nýta hluta af upphæðinni og setja meira fé í styrktarsjóði UÍF og jafnvel víkkað þá út.  Setja mætti upp glerskáp t.d. í íþróttahúsinu um siglfirskt íþróttastarf gegnum árin.  Kristján vildi skoða hvort að halda mætti fundi í húsakynnum aðildarfélaga, það gæti skapað tengingu milli félaganna og félagsmanna.

 

  1. Önnur mál; Þorvaldur er hugsi yfir úthlutun um Frístundastyrk. Gnýfari sótti um styrk til kaupa á hringgerði en þar sem gerðið hafið hækkað í verði frá því umsókn barst og þar til styrkurinn var greiddur féll sá kostnaður á félagið. Leggur félagið til að reglum um Frístundastyrk verði breytt að þessu leyti.  Mögulega hafi tölvupóstur til aðildarfélaganna um úthlutun misfarist. Því hafi dregist að upplýsa aðildarfélögin um að þau hafi hlotið úthlutun.  Einnig má skýra betur hvaða upphæð hafi farið milli ára sem óúthlutað og hvert sé hlutfall sveitarfélagsins. Kristján veltir fyrir sér hvort að greiða eigi hluta af kaupverði Hóls til aðildarfélaganna.  Einnig lagði Kristján til að hvert félag myndi segja frá starfinu hjá sínu félagi. Var það gert.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:40.

Fundarritari fær heimild fundarins til að ganga frá fundargerð.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir (sign.)

Formannafundur 8. apríl 2021

Fundur stjórnar UÍF með formönnum aðildarfélaga þann 8. apríl 2021 kl. 18. Fundurinn var haldin með fjarfundabúnaði.

Úr stjórn UÍF mættu: Jónína Björnsdóttir formaður,  Anna Þórisdóttir varaformaður, Eva Björk Ómarsdóttir gjaldkeri, Arnheiður Jónsdóttir ritari og Óskar Þórðarson meðstjórnandi.  Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir ritaði fundargerð.

Frá aðildarfélögum UÍF mættu;

Skotfélag Ólafsfjarðar: Sverrir og Rögnvaldur Jónsson.

Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar: Hilmar Símonarson.

Skíðafélag Ólafsfjarðar: Kristján Hauksson

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg; Jón Garðar Steingrímsson

Glói; Þórarinn Hannesson

Hestamannafélagið Gnýfari: Þorvaldur Hreinsson

Golfklúbbur Fjallabyggðar; Rósa Jónsdóttir.

Snerpa; Helga Hermannsdóttir.

Golfklúbbur Siglufjarðar: Jóhann Már Sigurbjörnsson.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar: Þorvaldur Sveinn og Magnús.

 

 

Fundargerð

Dagskrá;

  1. Brynja bauð fundarmenn velkomna á þennan annan fund með formönnum sem haldinn væri með fjarfundabúnaði og fór yfir dagskrá fundarins.

 

  1. Skýrsluskil til UÍF og ÍSÍ (Felix) vegna starfsemi aðildarfélaga á árinu 2020; Óskar fór yfir þau gögn sem aðildarfélögum voru send vegna skýrsluskila til UÍF. Leiðbeindi hann um útfyllingu og reikningsforrit. Einnig áréttaði hann að um væri að ræða upplýsingar vegna ársins 2020. Loks sýndi hann hvernig skýrsluskil í Felix færu fram. Umræður urðu um framtíð Felix og samruna Nora/Sportabler. Stjórn UÍF hafði engar upplýsingar um hvort ÍSÍ myndi halda áfram notkun Felix eða ekki.

 

  1. Endurskoðun á reglum um frístundastyrk; Óskar fór yfir tillögur vinnuhóps um breytingu á ákvæðum reglnanna. Lagðar voru fram tillögur að breytingum á 3. gr., 4. gr. og 5. gr.  og var nokkur umræða um þær.  Í 3. gr. var lagt til að tímafresti umsókna yrði breytt úr 15. janúar í 31. janúar og var það samþykkt. Í 4. gr. var lagt til að aðildarfélög sem hlotið hefðu styrk yrðu að leggja fram gögn um útlagðan kostnað í síðasta lagi þann 30. desember. Var það samþykkt. Loks var lagt til í 5. gr. að styrkhæf verkefni væru líka viðburðir sem fælu í sér kostnað fyrir aðildarfélög en ekki þátttakendur. Félli þá t.a.m. Fjarðargangan undir styrkhæft verkefni. Var það samþykkt.  Samþykkt ákvæði eru svohljóðandi:

 

3.gr.

Umsóknir um Frístundastyrk þurfa að berast fyrir 31. janúar ár hvert. Styrkur vegna hvers verkefnis er að hámarki 350.000 kr. og getur hvert félag sótt um styrk vegna þriggja verkefna.

 

Af heildarupphæð styrks renna 7% til umsýslu og reksturs UÍF.

 

4.gr.

Umsóknum skal skilað á þar til gerðu eyðublaði. Í umsókn skulu aðildarfélög gera grein fyrir verkefnum sem sótt er um svo og áætluðum tekjum, kostnaði og fjármögnun að öðru leyti. Aðildarfélög sem hlotið hafa styrk ber að leggja fram gögn í síðasta lagi 30. desember um útlagðan kostnað áður en til greiðslu styrks kemur. Styrkur verður greiddur út í kjölfarið eða í síðasta lagi 31.desember.

 

  1. gr.

Styrkhæf eru verkefni og viðburðir, sem fela í sér kostnað fyrir aðildarfélag en ekki þátttakendur. Einnig   kaup á búnaði til íþróttaiðkunar sem nýtist félagi. Jafnframt eru verkefni vegna íþróttaaðstöðu, annarra en fasteigna, sem aðildarfélög notast við styrkhæf.

 

Samþykktar breytingar formannafundar á reglunum verða síðan lagðar fyrir ársþing.  Einnig var stjórn UÍF falið á fá upplýsingar um hvenær styrkurinn yrði greiddur af Fjallabyggð til UÍF og kanna hvort hægt væri að ákveða tiltekna dagsetningu til framtíðar um útgreiðslu.

 

  1. Önnur mál;  umræður urðu um þjónustusamninga Fjallabyggðar við aðildarfélög um rekstur svæða og mannvirkja í eigu sveitarfélagsins.  Ákveðið að aðildarfélög myndu senda tillögur til stjórnar um hvað mætti betur fara í þessum samningum, t.a.m. lengd þeirra, og stjórn mun í kjölfarið gera drög að ályktun sem lögð yrði fyrir ársþing til samþykkis.  Heimsíða Hóls og útleiga var einnig rædd, en vinnu við síðuna hefur verið frestað tímabundið þar sem fyrirhugað er að selja Hól.   Athugasemdir ÍSÍ, dags. 7. október 2019, við lög nokkurra aðildarfélaga voru einnig ræddar. Einhver aðildarfélög voru búin að fá athugasemdirnar og gera breytingar á lögum sínum.

 

 

Fleira var ekki gert og þakkað fyrir góðan fund. Fundi slitið kl. 19:20.

UIF notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á holl.tonaflod.is

• CookieConsent


Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur